Þetta kom fram í Kastljósi í gærkvöldi en þar sagði Baltasar jafnfram að það væri kvikmyndaver RVK Studios í Gufunesi sem gerði verkefni af þessari stærð möguleg á Íslandi. Þá tekur Baltasar einnig að sér hlutverk framleiðanda í annarri bíómynd sem Netflix framleiðir.
„Það er búið að panta frá okkur seríu, efni sem er skrifað fyrir Ísland, gerist á Íslandi og er fyrir Ísland. Netflix ætlar að fullfjármagna fyrir utan endurgreiðslu Iðnaðarráðuneytisins á virðisaukaskatti,“ segi Baltasar. „Þetta er með ólíkindum, og gerðist mjög hratt. Þetta er sennilega stærsti staki samningurinn sem hefur verið gerður við íslenska kvikmyndagerð.“ Þættirnir verða í geiranum „grounded sci-fi“ og eru átta talsins, „í fyrstu seríu, svo er alveg mögulegt að það verð framhald þar á. Þeir eru hrifnir af efninu og áhugasamir um þetta.“ Handritsskrif eru nú í fullum gangi. „Þeir vilja hefja tökur í apríl og sýningar á fyrsta fjórðungi ársins 2021.“
Baltasar segir að kvikmyndin sem hann framleiðir verði mjög stórt verkefni með alþjóðlegri stórstjörnu í aðalhlutverki, en megnið af henni verður tekið á Íslandi, bæði útitökur og svo í kvikmyndaverinu í Gufunesi. „En ég er ekki að fara að leikstýra, bara framleiða. Það er ákveðin viðurkenning líka og kemur til eftir að ég gerði Everest. Þetta [myndin] gerist mikið í snjó og á Grænlandi. Því ég er að framleiða þá stjórna ég hverja ég ræð og þarf ekki að flytja inn erlent „crew“. Ég er þegar byrjaður að ráða íslenskt fólk, leikmyndahönnuð og annað.“