Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Netflix fullfjármagnar þáttaröð á íslensku

Mynd: RÚV / RÚV

Netflix fullfjármagnar þáttaröð á íslensku

27.09.2019 - 16:08

Höfundar

Netflix-veitan hefur náð samningum við framleiðslufyrirtæki Baltasars Kormáks um að fullfjármagna sjónvarpsseríu á íslensku. Þættirnir verða eins konar „jarðbundinn vísindaskáldskapur“ og þeir verða teknir á Íslandi, sem er jafnframt sögusvið þeirra, með íslenskum leikurum í öllum helstu hlutverkum.

Þetta kom fram í Kastljósi í gærkvöldi en þar sagði Baltasar jafnfram að það væri kvikmyndaver RVK Studios í Gufunesi sem gerði verkefni af þessari stærð möguleg á Íslandi. Þá tekur Baltasar einnig að sér hlutverk framleiðanda í annarri bíómynd sem Netflix framleiðir.

„Það er búið að panta frá okkur seríu, efni sem er skrifað fyrir Ísland, gerist á Íslandi og er fyrir Ísland. Netflix ætlar að fullfjármagna fyrir utan endurgreiðslu Iðnaðarráðuneytisins á virðisaukaskatti,“ segi Baltasar. „Þetta er með ólíkindum, og gerðist mjög hratt. Þetta er sennilega stærsti staki samningurinn sem hefur verið gerður við íslenska kvikmyndagerð.“ Þættirnir verða í geiranum „grounded sci-fi“ og eru átta talsins, „í fyrstu seríu, svo er alveg mögulegt að það verð framhald þar á. Þeir eru hrifnir af efninu og áhugasamir um þetta.“ Handritsskrif eru nú í fullum gangi. „Þeir vilja hefja tökur í apríl og sýningar á fyrsta fjórðungi ársins 2021.“

Baltasar segir að kvikmyndin sem hann framleiðir verði mjög stórt verkefni með alþjóðlegri stórstjörnu í aðalhlutverki, en megnið af henni verður tekið á Íslandi, bæði útitökur og svo í kvikmyndaverinu í Gufunesi. „En ég er ekki að fara að leikstýra, bara framleiða. Það er ákveðin viðurkenning líka og kemur til eftir að ég gerði Everest. Þetta [myndin] gerist mikið í snjó og á Grænlandi. Því ég er að framleiða þá stjórna ég hverja ég ræð og þarf ekki að flytja inn erlent „crew“. Ég er þegar byrjaður að ráða íslenskt fólk, leikmyndahönnuð og annað.“

Mynd með færslu
 Mynd: RVK Studios
Kvikmyndaverið er eitt stærsta sinnar tegundar í Evrópu.

Forsenduna fyrir báðum þessu verkefnum segir Baltasar vera kvikmyndaverið í Gufunesi í húsnæði gömlu Áburðarverksmiðjunnar. „Það er fullbúið og eitt það stærsta í Evrópu.“ Það auki gríðarlega líkur á stórum verkefnum og auknu umfangi. „Það færir okkur mikið af tökudögum og færir líka íslenska kvikmyndagerð upp á hærra plan. Innlendi bransinn hefur notið góðs af erlendu verkefnunum, tækninni og þekkingunni hefur fleytt fram vegna þeirra.“ Þá á að rísa í kringum verið eins konar kvikmyndaþorp. „Þetta er mjög langt komið, frábærar íbúðir með útsýni, 600 íbúðir í fyrsta fasa. Það verður bátastrætó frá Hörpu, mikið af hjólastígum og sundlaug sem verður fljótandi í sjónum.“

Þrátt fyrir að vera bjartsýnn fyrir hönd íslenskrar kvikmyndagerðar segir hann ákveðnar blikur á lofti, og geldur mikinn varhug við hugmyndum um að setja þak á 25% endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra kvikmyndaverkefna. „Það yrðu skelfileg tíðindi fyrir allt þetta uppbyggingarstarf. Því alls staðar annars staðar er þessi endurgreiðsla, Bretlandi til dæmis, og við myndum fara aftar í röðina og það myndi snarfækka verkefnum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RVK Studios
Svona er áætlað að kvikmyndaþorpið í Gufunesi líti út eftir að uppbyggingu er lokið.

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða afhent í Reykjavík á næsta ári og Baltasar lagði þar hönd á plóg. Hann bauð sig fram í Evrópsku kvikmyndaakademíuna fyrstur Íslendinga og var kosinn inn. „Með það í huga að auka hlut okkar Íslendinga í þessu. Á fyrsta stjórnarfundi stakk ég svo upp á að halda það á Íslandi og það var tekið vel í það. Þá hringdi ég í Lilju [Alfreðsdóttur menntamálaráðherra] og Dag [B. Eggertsson], og þau voru til í þetta.“ Hann segir það að halda hátíðina á Íslandi skapi mörg tækifæri, ekki síst fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor að komast í kynni við erlent hæfileikafólk. „Kvikmyndagerð er að svo ofboðslega stórum hluta tengslanet.“

Baltasar hóf eins og kunnugt er ferilinn sem leikari en frá því hann leikstýrði sinni fyrstu kvikmynd, 101 Reykjavík, sést hann æ sjaldnar á skjánum. Er hann alveg hættur að leika? „Ég hugsa að ég hætti því nú aldrei. En ég er ekki til í að leika hvað sem er og hvenær sem er. Það hafa nokkur tilboð komið sem ég hef ekki þekkst. En ég hef samt alveg gaman að því. En ég vakna á morgnana sem leikstjóri, og fer að sofa sem leikstjóri og framleiðandi.“

Jóhann Vigdís Hjaltadóttir ræddi við Baltasar Kormák í Kastljósi.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Gerir mynd og sjónvarpsþætti fyrir Netflix

Kvikmyndir

Baltasar leikstýrir Wahlberg í þriðja sinn

Sjónvarp

Biðst afsökunar á örlögum Ásgeirs

Menningarefni

Baltasar í viðræðum við MGM um nýja mynd