Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Nemum vísað úr landi vegna breytinga á lögum

25.10.2017 - 22:27
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Erlendum kokkanema, sem hefur verið hér við nám í tvö ár, verður vísað úr landi vegna breytinga á útlendingalögum. Veitingamaður segir þetta blauta tusku í andlit iðnaðarmanna.

Choung Lei Bui er í kokkanámi í Menntaskólanum í Kópavogi og í starfsnámi á veitingahúsinu Nauthóli. Eftir tveggja ára iðnnám fékk hún þær fréttir að það eigi að vísa henni úr landi, þar sem ekki er lengur veitt dvalarleyfi til iðnnema.

„Lögfræðingur Choung fær bréf í ábyrgðarpósti og þar er ákvörðun Útlendingastofnunar um að henni skuli vísað úr landi og bara helst fyrir lok mánaðarins. Og hún bara brotnar niður og segir mér það að hún fái ekki að vera lengur og megi ekki klára og þetta var náttúrulega bara áfall fyrir okkur, vinnufélaga hennar, okkur fannst þetta bara út í hött að hér er einhver sem er hálfnaður með námið sitt og það á að vísa honum úr landi út af einhverri lagabreytingu sem að enginn vissi um.“ segir Björn Ingi Björnsson, yfirkokkur á Nauthóli. 

Fyrir lagabreytinguna, sem tók gildi um áramótin, gátu nemar í fullu námi á háskólastigi eða ígildi þess, eða í iðnnámi fengið dvalarleyfi á meðan þeir væru hér við nám. Eftir breytinguna á útlendingalögum er búið að fella burt iðnnám, en háskólanám og ígildi þess stendur eftir.

Björn segir að svo virðist sem enginn hafi vitað neitt um þetta. „Ég hafði strax samband við Iðuna, Matvís, Hótel- og matvælaskólann og fór að spyrjast fyrir um þessar lagabreytingar og það virtist bara enginn hafa heyrt neitt um þetta. Ef að þetta eru ekki bara hrein og klár mistök sem hafa þarna orðið, sem ég bara vona, þá er þetta bara blaut tuska í andlitið á öllum iðnaðarmönnum því að þarna er verið að setja iðnnám niður og gera lítið úr því.“

Búið er að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar. „Hún fær einhvern tíma á meðan kæran er í vinnslu og við náttúrulega bara vonum að þeir sjái að sér hjá Útlendingastofnun.“

Choung segist vilja vera áfram hér á Íslandi og klára kokkanámið. „Að það sé verið að senda hæfileikaríka unga stúlku úr landi er náttúrulega bara út í hött.“ segir Björn. 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV