Nemendur átu á sig gat og brustu í söng

25.02.2020 - 19:52
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Landsmenn átu margir hverjir á sig gat í dag, sprengidag. Í Brekkuskóla á Akureyri var nemendum boðið upp á saltkjöt og baunasúpu í tilefni dagsins, við mis mikla hrifningu.

Sprengidagsveisla í Brekkuskóla

Nú er síðasti dagur fyrir lönguföstu og þá gildir að borða vel af saltkjöti og baunum. Fáir fasta þó lengur í kjölfarið. Í Brekkuskóla á Akureyri var efnt til sprengidagsveislu í hádeginu þar sem nemendum var boðið upp á saltkjöt, baunir og rófur. 

Mikilvægt að halda í hefðir

Júlíus Jónsson hefur eldað ofan í nemendur skólans í tæpa tvo áratugi. Hann segir mikilvægt að halda í hefðir þegar að kemur að matargerð. 

„Við erum allavegana búin að vera með þetta hérna í 16 ár í röð, á hverju ári og það er allavegana enginn sem kvartar.....Þetta er nú svosem bara einhver gömul hefð sem við erum að reyna að halda í og saltneyslan höldum við í lágmarki hérna. Við höfum þetta einu sinni á ári, ekki oftar þannig að ég held að við séum alveg að halda okkur við markmiðin,“ sagði Júlíus. 

Fréttastofa leit við í Brekkuskóla í dag og tók nokkra nemendur tali. Þó svo að það séu ekki allir hrifnir af þessu ágæti var stemningin í mötuneytinu heldur betur góð. Raunar svo góð að nemendur brustu í söng.