Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Neita að skrá heimsmet Auðuns blaðasala

01.03.2018 - 15:18
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Fullvíst þykir að Auðunn Gestsson, sem er betur þekktur Auðunn blaðasali, sé elsta núlifandi manneskja í heimi sem er með Downs-heilkennið. Þetta segir Kolbrún Ragna Ragnarsdóttir, frænka Auðuns. Auðunn fagnaði áttræðisafmæli sínu um helgina. Kolbrún reyndi að skrá hann á vefsíðu heimsmetabókar Guinness en ekki var tekið við skráningunni. Svörin sem Kolbrún fékk er að þar sé fólk hætt að skrá aldur fólks með Downs-heilkenni þar sem litið sé á það sem fötlun. 

Síðasti maðurinn sem Guinness skráði sem elsta manninn með Downs-heilkenni er Kenny Cridge sem búsettur er í Bretlandi. Afmælisdagur hans er 22. febrúar og þann dag í fyrra hampa breskir fjölmiðlar Kenny sem heimsins elstu manneskju með Downs-heilkenni þegar sagt var frá því að hann hafi fagnað 77 ára afmæli sínu. Hann er því tveimur árum yngri en Auðunn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Kolbrún segir að hjá Guinness sé skráð að sú manneskja sem lengst hafi lifað með Downs-heilkenni hafi verið frú K. frá Illinois í Bandaríkjunum. Hún hafi látist 83 ára að aldri. „Ég ætla ekki að hætta að reyna að fá Auðun skráðan hjá Guinness,“ segir Kolbrún. Hún kveðst ætla að reyna að nýju eftir þrjú ár.

Sagt var frá afmæli Auðuns í sjónvarpsfréttum RÚV á sunnudag en sjálfur afmælisdagurinn var á þriðjudaginn. Kolbrún segir að Auðunn hafi verið alsæll með afmælisveisluna og fjölmiðlaumfjöllunina. Eitt af því sem Auðunn hefur sérstaka ánægju af er að skoða myndir af sjálfum sér. Fjölskyldan færði honum stafrænan myndaramma í afmælisgjöf með tugum mynda af honum og ættingjum. 

Auðunn bjó hjá systur sinni þangað til hann varð sjötugur. Gerður systir hans er 97 ára og síðustu tíu árin hefur Auðunn búið á sambýli. „Hann vill frið og rólegheit,“ segir Kolbrún. Auðunn ver dögunum í að hlusta á tónlist, útvarp og horfa á sjónvarp. Þá hefur hann mikla ánægju af því að klippa myndir út úr blöðum og safnar þeim. Svo fylgist Auðunn með fótbolta. Hann fékk að gjöf fótboltatreyju íþróttafélagsins Víðis í Garði. Fyrir átti Auðunn tugi treyja frá öllum helstu knattspyrnufélögum landsins. „En hann á líklega ekki landsliðstreyju,“ bætir Kolbrún við og hyggst bæta fljótlega úr því. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV