Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Neistar kveiktu bál á Blómstrandi dögum

18.08.2019 - 00:26
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Neistar af flugeldum kveiktu eld í Hveragerði á ellefta tímanum í kvöld. Árleg flugeldasýning var haldin í bænum í kvöld í tilefni Blómstrandi daga. Mjög þurrt hefur verið í Hveragerði, líkt og víðar á sunnan- og vestanverðu landinu undanfarnar vikur. Því dugðu neistarnir til þess að kveikja nokkurn eld í skraufþurru grasinu.

Vitni sem hafði samband við fréttastofu segir tvo menn hafa stokkið til og reynt að slökkva eldinn, en síðar komu tveir dælubílar frá Brunavörnum Árnessýslu og réðu niðurlögum eldsins.

Sverrir Haukur Grönli, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, segir eldinn hafa verið vel viðráðanlega og greiðlega hafi gengið að slökkva hann. Hann segir aðstæður hafa verið þannig að lítið þurfti til að eldur kviknaði. Gróðurinn sé sérstaklega viðkvæmur núna, eftir þurrkatíðina, og mæla slökkviliðsmenn ekki með litlum einkaflugeldasýningum eins og staðan er.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, birti myndband af sinueldinum á Facebooksíðu sinni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV