Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Neil Young - einkaviðtal

Mynd með færslu
 Mynd:

Neil Young - einkaviðtal

06.07.2014 - 17:15
Kanadíski tónlistarmaðurinn Neil Young kom til Reykjavíkur á föstudag, en hann heldur tónleika með hljómsveit sinni, Crazy Horse, annað kvöld. Tónleikarnir eru þeir fyrstu í tónleikaferð Youngs og hljómsveitarinnar. Young segist heillaður af íslenskri náttúru en þykir orðið mikið um ferðamenn hér.

Neil Young kennir umboðsmanni sínum um að hann hafi ekki komið hingað áður; hann spili bara þar sem honum er sagt að spila - og honum líki best að spila þar sem hann hefur aldrei komið áður. Tónlistin eldist ekki - bara hann og félagar hans. Þetta eru fyrstu tónleikarnir sem Neil spilar með Crazy Horse án Billys Talbots, bassaleikarans sem verið hefur með hljómsveitinni síðan 1968; Talbot fékk nýlega heilablóðfall. 

Young segist ekki enn geta talað um dagskrána annað kvöld - hún verði ákveðin á morgun og hann vilji ekki gefa of mikið upp. 

Hann segist hafa farið nokkrum sinnum í Bláa Lónið síðan hann kom og það hafi verið ánægjuleg reynsla. Það sé mikið af fólki - jafnvel of mikið - en það sé kostnaður við velgengnina. Hann segist vera hrifinn af íslenskri náttúru; það sé gaman að sjá hreint og fallegt land þar sem hægt er að drekka vatnið úr krönum og rafmagnið komi frá endurnýjanlegum auðlindum.