Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nefndi hundinn í höfuðið á teiknimyndapersónu

Mynd: RÚV / RÚV

Nefndi hundinn í höfuðið á teiknimyndapersónu

17.01.2020 - 11:22

Höfundar

Það er kannski ekki tilviljun að sjónvarpsstjarnan Gísli Marteinn Baldursson og rannsóknarblaðamaðurinn Tinni eru svipaðir í klæðaburði. Gísli, sem er augljóslega mikill aðdáandi Tinna, varð heldur ekki fyrir vonbrigðum með kvikmyndina um ævintýri hans sem sýnd er í Bíóást á RÚV á laugardagskvöld.

Tinnabækurnar eru teiknimyndabókaflokkur eftir belgíska höfundinn Georges Remi sem skrifaði ungir dulnefninu Hergé. Bækurnar segja frá ævintýrum unga rannsóknarblaðamannsins Tinna og hundi hans og besta félaga, Tobba. Aðdáendur bókanna þekkja líka Skapta og Skafta, seinheppnu lögreglumennina, drykkfellda skipstjórann Kolbein kaftein og heyrnarsljóa uppfinningamanninn Vandráð prófessor. Gísli Marteinn hefur lengi verið aðdáandi Tinna, jafnvel svo einlægur aðdáandi að hann nefndi golden retriever hundinn og einn sinn besta félaga sama nafni. Hann fór því að sjálfsögðu að sjá kvikmyndina Ævintýri Tinna: leyndardómur einhyrningsins sem kom út 2011 og hafði hún mikil áhrif á hann.

„Þessi tilraun var sú mest spennandi sem við Tinna-aðdáendur höfðum heyrt af og olli hún ekki vonbrigðum,“ segir Gísli Marteinn ákveðinn en Tinna-aðdáendur eru kröfuharður hópur að hans sögn og heilt yfir tókst Steven Spielberg að uppfylla kröfurnar. Undirtitill myndarinnar, Leyndardómur einhyrningsins, er vísun í eina af Tinnabókunum frægu en í raun er söguþræði þriggja bóka blandað saman í myndinni. Þeirrar samnefndu, Fjársjóðs Rögnvaldar rauða og svo annarrar sem kemur aðeins á undan hinum og heitir Krabbinn með gylltu klærnar.

Vinátta vonlausrar fyllibyttu og fimmtán ára blaðamanns

Gísli segir ekki ljóst hvers vegna sú ákvörðun hafi verið tekin en telur líklegt að hluti ástæðunnar sé að hafa með í myndinni þá örlagaríku stund þegar Tinni og vinur hans Kolbeinn kafteinn hittast í fyrsta sinn en það gerist í Krabbanum með gylltu klærnar. „Kolbeinn er náttúrulega vonlaus fyllibytta en það tekst á með þeim þessi fallega vinátta harðgerðs drykkfellds skipstjóra og fimmtán ára unglings,“ segir Gísli glettinn. „Margir hafa lesið ýmislegt í það en þetta eru í raun bara þessar andstæður. Tinni er hinn dyggðugi maður og Kolbeinn hinn meingallaði karl sem er samt sem áður tryggðartröll.“

Indiana Jones fyrsta Tinnamynd Spielbergs

Samspil Hergé og Spielbergs segir Gísli að skapi góða harmóníu en Spielberg var sjálfur heltekinn af Tinnabókunum áður en flestir Bandaríkjamenn kynntust honum. „Tinni hefur aldrei verið stór í Bandaríkjunum en Spielberg kemst á snoðir um hann í gegnum aðra bíómynd sem margir kvikmyndaáhugamenn þekkja,“ segir Gísli og vísar þar í kvikmyndina Maðurinn frá Ríó í leikstjórn Philippe de Broca frá árinu 1964.

Indiana Jones var í raun líka Tinni

Þegar Spielberg sér þá kvikmynd heillast hann af kraftinum og hröðu framvindunni svo hann skrifar leikstjóra og framleiðendum myndarinnar bréf og spyr hvaðan innblásturinn komi. Svarið sem hann fær er að það sé auðvitað Tinni sjálfur sem sé fyrirmyndin. „Í framhaldinu, í gegnum þessa skrýtnu mynd, gerir Spielberg sínar eigin Tinnamyndir, sem er ekki sú sem við erum að fara að sjá heldur Indiana Jones,“ segir Gísli. „Í raun er verið að loka hringnum þegar Spielberg gerir mynd um hinn raunverulega Tinna sem áður hafði bara verið innblástur fyrir hann.“

ET með óvænta innkomu í opnunartitlunum

Fyrir glögga aðdáendur Tinna má finna ýmsar vísanir í ólíkar Tinnabækur og hjó Gísli eftir nokkrum slíkum í opnunaratriðum myndarinnar þar sem greina má vísanir í bækur og jafnvel kvikmyndir. „Ég bið menn sérstaklega að taka eftir því að þegar nafn Spielberg kemur, sem leikstjóri, birtist ritvél fyrir neðan og þar er ósýnilegur fingur sem ýtir á tvo stafi,“ glottir Gísli en stafirnir sem fingurinn velur eru E og T sem er augljós vísun í kvikmyndina um geimveruna góðlátlegu sem Spielberg leikstýrði og flestir þekkja. „Þetta er góður lítill moli.“

„Ég hef teiknað þig áður“

Höfundur Tinnabókarinnar, Hergé sjálfur, mætir einnig til leiks í myndinni. Í einu atriðanna má sjá Tinna skoða sig um á hefðbundnum skranmarkaði í Brussel þar sem listamenn sitja víða og teikna og mála umhverfi og ferðamenn. Tinni fær einn þeirra til að teikna sig, sem teiknar hann upp nákvæmlega eins og Tinni birtist lesendum myndasögubókanna. Þá er það auðvitað Hergé sem er sestur í stólinn og með pensilinn á lofti. „Þetta er lítið páskaegg í myndinni. Hann segir við Tinna: Hef ég ekki teiknað þig áður? Tinni svarar: Jú, ég er ekki frá því að þú hafir teiknað mig nokkrum sinnum,“ segir Gísli Marteinn að lokum og hlær. 

Í vetur sýnir RÚV vel valdar kvikmyndir sem hafa valdið straumhvörfum í kvikmyndasögunni. Að þessu sinni er það hin margverðlaunaða fjölskyldumynd Ævintýri Tinna frá 2011 í leikstjórn Stevens Spielberg. Myndin er sýnd á laugardag klukkan 20:20.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Hápunktur blómatíma teiknimyndanna

Kvikmyndir

Hasarmynd með hjarta og góðum skylmingaatriðum

Kvikmyndir

„Fólk gerir ekki ráð fyrir að hún sé hættuleg“