Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Neðanjarðarsala á smokkum í Lærða skólanum fyrir 1900

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons

Neðanjarðarsala á smokkum í Lærða skólanum fyrir 1900

06.12.2019 - 11:47

Höfundar

„Ég held að það sé trúnaður leggjandi á þær upplýsingar að lærðaskólapiltar hafi notað, keypt og selt smokka sín á milli. Það hafi semsagt farið fram neðanjarðarsala á smokkum í Lærða skólanum rétt fyrir aldamótin 1900,“ segir Þorsteinn Vilhjálmsson, fornfræðingur og sjálfstætt starfandi fræðimaður. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein hans Kaupstaðasótt og Freyjufár í nýjasta hefti Sögu - tímarits sagnfræðingafélagsins.

Í greininni fjallar Þorsteinn um orðræðu um kynsjúkdóma og kynheilbrigði á Íslandi frá 1886 til 1940. Heimildir sem hann byggir greinina á eru þrenns konar, nafnlausar greinar úr reykvískum götublöðum á fjórða áratug 20. aldar, opinber eða hálfopinber skrif lækna og svo árbækur nemenda úr Lærða skólanum á seinustu 15 árum 19. aldar en bækurnar voru einungis hugsaðar fyrir höfundana sjálfa og samnemendur þeirra.

Þorsteinn segir að ómögulegt sé að leggja trúnað á allt það sem kemur fram í árbókum skólapiltanna, þar séu ýkjusögur sem séu fullar af stétta- og kvenfyrirlitningu. En þrátt fyrir það gefi þær okkur innsýn í hugmyndaheim  piltanna og sýn á kynlíf og kynheilbrigði. Það er í þeim sem smokkarnir eru nefndir í fyrsta skipti í færslu fyrir skólaárið 1899-1900.

Þá fara piltar að fá sér reiðfæri, þau er þeir kölluðu „smokka“. Sú náttúra fylgir verkfærum þessum, að þau girða fyrir allar hættulegar afleiðingar kvennafars að konur verði barnshafandi, þótt karlar hafi holdlegt samræði við þær. Sumir skólapiltar tóku þessum nýju gestum þegar tveim höndum og þeim þótti sem gripir þessir væri hin mestu þarfaþing, því að nú gátu þeir áhyggjulausir stytt sér stundir á geðslegum griðkumaga á hinum löngu, leiðinlegu og skuggafullu skammdegis kveldum … Brátt fóru fleiri og fleiri að nota verjur þessar. Var svo komið veturinn 1896–97 … að eigi allfáir pilta höfðu „smokka“ … Til þessa hafði það verið allmiklum erfiðleikum bundið að afla þinga þessara, því að þau vóru seld með hinni mestu leynd og því var einatt erfitt að vita, hvar þau væri helzt að fá. En vorið 1897 gekk drengur einn inn í skólann, er varð skólapiltum hin mesta bjargvættur í þessu efni. Það var Adolph Wendel.

Wendel var kaupmannssonur og síðar kaupmaður í Osló sem virðist hafa notað verslunarsambönd föður síns við útlönd til að komast yfir smokka til eigin notkunar og sölu.

Þorsteinn segist telja að frásagnir af þessum nýju getnaðarvörnum í árbókum lærðaskólapilta séu elstu heimildir á Íslandi um þetta nýstárlega fyrirbæri sem fjöldaframleiddi gúmmísmokkurinn var.

„Þeir voru tiltölulega nýlegt fyrirbrigði á þessum tíma. Þeir voru fundnir upp um 50 árum fyrr í Bandaríkjunum. En á þessum tíma voru þeir ólöglegir í afskaplega mörgum löndum heimsins. Þannig að það að þeir hafi verið í sölu hér á Íslandi er nokkuð merkilegt,“ rætt var við Þorstein í Lestinni á Rás 1. Hlusta má á viðtalið í heild hér fyrir ofan.

 

Mynd með færslu
 Mynd:
Þorsteinn Vilhjálmsson