Nautnum bundið nýaldardiskó  

Mynd með færslu
 Mynd: LØV & LJÓN - Facebook

Nautnum bundið nýaldardiskó  

10.01.2020 - 13:08

Höfundar

Dúettinn LØV & LJÓN framreiðir einslags nútímadiskó á frumburði sínum Nætur. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Einar Lövdahl gaf út sólóplötuna Tímar án ráða árið 2013 sem innihélt þekkilegt indípopp. Nú skellir hann sér hins vegar í lakkskóna og fer út á gólfið ásamt vini sínum Agli Jónssyni. Kalla þeir sig LØV & LJÓN og var platan tekin upp hér og hvar, í Reykjavík, Stokkhólmi, London og Apavatni. Egill býr í Stokkhólmi en hann spilar á svo gott sem öll hljóðfærin á nýju plötunni, útsetur og upptökustýrir. Segja má að borgin sú spili ákveðna rullu á diskóskotnu efninu, sem allt er frumsamið, en hágæða popp er ein helsta útflutningsvara Svía eins og kunnugt er. Platan lútir á Spotify og er stutt, undir tuttugu mínútum og inniheldur fimm lög og tvö stef.  

Skotið

Þegar ég byrjaði að hlusta skutu Þú og ég upp kolli og líka sólóefni Jóhanns Helgasonar frá níunda áratugnum. Ekki nema von, sá ég svo síðar, en fyrsta útgáfa dúettsins var ábreiða á „Ég gef þér allt mitt líf“. Fagurfræði Jóhanns og þessa tímabils liggur yfir efninu hérna, og platan minnir mig líka á það sem Boogie Trouble var að gera. Ungt fólk að vinna með arfleifð, uppfæra diskóið og matreiða það ofan í nútímamanninn.

Eftir stutt inngangsstef er rúllað af stað með lagið „Kaflaskil“. Það fer af stað á dramatískan hátt en svo er skipt í ljúfa melódíu og falsettusöng er viðhaldið hér sem annars staðar á plötunni. Þekkilegasta smíð, þannig til að gera. „Svífum“ er rafskotið diskó þar sem „ljósin á dansgólfinu deyfa mig“ og „Kraftaverk“ er í svipuðu móti, er þó brotið upp með skemmtilegum strengjakafla. Bassinn hoppar upp og niður og grúvið er gott. „Mannsbarn“ er óður um að dansinn geti bjargað mannslífum. Hið skemmtilega nefnda „Forspil“ (sjötta lagið á plötunni) lýtur svipuðum lögmálum og það sem upp hefur verið talið og  „Fjara“ er svo nokkurs konar eftirspil.

Ágætt

Þetta er ágætlega framreitt efni þó að lögin sem slík eigi það til að rista grunnt. Hamurinn sem þau eru í trompar m.ö.o. nótnasamsetningu, sem hefði mátt ýta meira við manni. Það er svona nettur svefnherbergisbragur á þessu, gæluverkefni tveggja vina og spurning hvert þeir ætla með þetta í framhaldinu. Næsta umferð þyrfti í öllu falli að vera bústnari. Þetta er ágætt, hvorki meira né minna.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlæg og vonbjört

Tónlist

Einlægt og ástríðufullt

Popptónlist

Dramatískt og einlægt