Náungakærleikur á skrítnum tímum

19.03.2020 - 13:58
Mynd með færslu
 Mynd: Slysavarnadeildin Vörn
Slysavarnadeildin Vörn á Siglufirði fer í kjörbúðina og apótek fyrir þá sem treysta sér ekki vegna COVID-19. „Það minnsta sem við getum gert“ segir sjálfboðaliði.

Á Siglufirði leggjast allir á eitt og aðstoða hvort annað í gegnum þessa skrítnu tíma.  Eftir að samkomubann skall á bauðst Slysavarnardeildin Vörn til að fara í kjörbúðina eða apótekið fyrir alla þá sem eru í áhættuhópum og treysta sér ekki til að fara sjálfir vegna COVID-19.

Guðrún Linda Rafnsdóttir situr í stjórn Varnar; „Okkur langaði að gera eitthvað til að hjálpa og aðstoða og okkur datt þetta í hug“. Hún segir töluvert af eldra fólki á Siglufirði, einhverjir eigi enga ættingja eða þá að ættingjar séu jafnvel fastir heima.

Á von á því að beiðnum fjölgi

Sérstakur opnunartími er í kjörbúðinni fyrir áhættuhópa eins og víða annars staðar. „Þrátt fyrir það er fólk sem treystir sér ekki eða kemst ekki út í búð, þá komum við til aðstoðar“ segir Guðrún Linda. Hún segir nokkra búna að óska eftir aðstoð en á von  því að það aukist ef veiran fer að breiða úr sér á svæðinu. Á Siglufirði eru nokkrir í sóttkví en ekkert staðfest smit.

Björgunarsveitin hefur nóg á sinni könnu

Hún segir hversdagslífið á Siglufirði ekki búið að breytast mikið ennþá. Það sé lítið um stress, skólinn haldist opinn en einhver röskun sé hjá leikskólanum. Björgunarsveitin hefur staðið í ströngu síðustu mánuði vegna snjóa svo slysavarnadeildin hafi ákveðið að taka þetta verkefni á sinn væng því „það er það minnsta sem við getum gert. Í svona litlu samfélagi séu allir til í að hjálpast að. 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi