Nauðsynlegt að taka frumkvæðið ef til sameiningar kemur

27.02.2020 - 15:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps segir að sveitarfélög, sem falla undir nýtt viðmið um lágmarksfjölda íbúa, verði að vera tilbúin að sameinast öðrum þegar þar að kemur. Nauðsynlegt sé að taka frumkvæðið svo sameining verði ekki neyðarbrauð.

Það búa um 500 manns í Svalbarðsstrandarhreppi og því nær sveitarfélagið ekki settum lágmarksfjölda íbúa sem er 1000, samkvæmt nýju frumvarpi um sameiningu.

Mikilvægt að átta sig á því hver staðan er

Nýlega var haldinn íbúafundur á Svalbarðseyri í þeim tilgangi að skoða hvernig undirbúa þurfi samfélagið fyrir væntanlega sameiningu. „Fyrir okkur er mjög mikilvægt að átta okkur á því hvaða þjónustuþörf við höfum. Hvað við þurfum að leggja áherslu á, hvað við ætlum að varðveita, hvað við ætlum að byggja upp og hvernig við ætlum að standa að því," segir Björg Erlingsdóttir, sveitarstjóri.

Skólaþjónusta sem fyrst og fremst þarf að tryggja

Svalbarðsstrandarhreppur sækir mikla þjónustu til nágrannasveitarfélagsins Akureyrarbæjar og er gjarnan með þjónustusamninga þar að lútandi. Björg segir að sú þjónusta sem aðallega sé í sveitarfélaginu sé leikskóli og grunnskóli. „Það er okkur mjög mikilvægt að halda vel utan um þá starfsemi og tryggja að húna verði áfram og áfram jafn öflug og hún er núna.“ 

Efast um að 1000 íbúa markið sé það rétta

Og hún segir miklar efasemdir í sveitarstjórn um það hvort lágmarkstalan 1000 íbúar sé sú rétta. „Við höldum að það þurfi kannski ennþá stærra sveitarfélag til þess að standa undir allri þeirri þjónustu sem ríkið er bæði búið að koma og er mögulega að fara koma yfir á herðar sveitarfélaga." 

„Við ætlum ekki að sitja eftir“

En verði frumvarp sveitarstjórnarráðherra að lögum, þurfi að taka frumkvæðið svo sameining verði ekki neyðarbrauð. „Við þurfum að bregðast við og við ætlum ekki að sitja eftir. Það er svolítið það sem við erum að byrja að vinna að núna og líka að draga íbúana svolítið að borðinu, þannig að þetta sé gert á þeirra forsendum."