Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nauðlentu flugvél á mjóum vegi í Súðavík

13.08.2015 - 14:12
Mynd með færslu
 Mynd: Þórður Kr. Sigurðsson Súð
Mynd með færslu
 Mynd: Þórður Kr. Sigurðsson Súð
Mynd með færslu
 Mynd: Þórður Kr. Sigurðsson Súð
Mynd með færslu
 Mynd: Þórður Kr. Sigurðsson Súð
Lítil flugvél nauðlenti í Súðavíkurhlíð rétt fyrir hádegi í dag. Tveir menn voru í flugvélinni og sluppu báðir ómeiddir. Þá er vélin einnig óskemmd.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu þykir mildi að ekki fór verr.

Mennirnir voru tiltölulega nýlagðir af stað frá Ísafirði, þegar þeir neyddust til að lenda. Þeim tókst að lenda flugvélinni á veginum undir Súðavíkurhlíð. Hlíðin rís snarbrött upp rétt við veginn og á hina höndina gein sægrýti og haf.

Að sögn lögreglu var mikil hætta á ferðum og telja má afrek að mönnunum hafi tekist að lenda vélinni á veginum á þessum stað.

„Á dauða mínum átti ég von, en ekki því að sjá flugvél á Súðavíkurvegi,“ segir Þorsteinn Haukur Þorsteinsson, sem kom að vegarkaflanum stuttu eftir að vélin hafði nauðlent.

„Það er ekki mikil umferð undir Súðavíkurhlíðinni núna. Það hefur kannski orðið til þess að þeir hafa getað lent,“ segir hann.

Málið er í rannsókn lögreglu og enn sem komið er hafa ekki fengist skýringar á því hvers vegna vélin þurfti að lenda.

Myndirnar sem fylgja þessari frétt tók Þórður Kr. Sigurðsson frá Súðavík. Hér má nálgast fleiri myndir úr smiðju hans.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV