„Nauðbeygð til að gjörbreyta allri gjaldtöku“

19.09.2019 - 14:30
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir nauðsynlegt að stjórnvöld fylgi þeirri þróun sem nú eigi sér stað í orkuskiptum í samgöngum. Gjaldtaka sé þar á meðal, þar sem bílar sem ekki eru knúnir jarðefnaeldsneyti keyri um göturnar án þess að leggja nokkuð til varðandi kostnað.

Þetta sagði Bjarni eftir fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, á Alþingi í dag. Sigmundur spurði þá hvort ráðherra geti hugsa sér að fólk verði látið borga viðbótargjöld fyrir það að aka um vegi höfuðborgarsvæðisins. Vegi sem það sé þegar búið að borga með sköttum á bílum sem það greiði hin ýmsu gjöld af til ríkisins.

Tilefnið er að búið er að boða veggjöld á helstu stofnæðum höfuðborgarsvæðisins til að fjármagna samgönguframkvæmdir.

Bjarni benti á að á síðasta ári hafi verið gefnir eftir þrír milljarðar í virðisaukaskatti til að fá inn umhverfisvæna bíla. Þá séu engin vörugjöld tekin af þeim. Umhverfisvænum bílum sé að fjölga og það kalli á nýja hugsun hvernig gjaldkerfið er byggt upp.

„Ég sé ekki bara fyrir mér að við gætum tekið upp ný gjöld heldur sé ég fyrir mér að við séum nauðbeygð til að gjörbreyta allri gjaldtöku af ökutækjum, eldsneyti og samgöngum í landinu. Ég sé fyrir mér að fólk muni í framtíðinni meira greiða fyrir notkun á vegakerfinu og það muni borga miklu minna fyrir að eignast bíl. Það muni sjaldnar fara á dæluna og sjaldnar greiða eldsneytisgjöld,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að ekki eigi að þurfa að auka gjaldtökur á ökutæki til þess að fara í gengum þessar breytingar í orkuskiptum. Ekki sé þó heldur hægt að horfa framhjá því að tekjustofnar falli með umhverfisvænni bílum, sérstaklega varðandi eldsneytisgjöld.

„Ég lít ekki á þetta sem gríðarlega ógn. Ég horfi á það sem gríðarleg tækifæri fyrir samfélagið okkar, að við hættum að kaupa orku af öðrum þjóðum til að keyra samgöngur á Íslandi.“

Sigmundur spurði um „borgarlínufyrirbærið“

Þá spurði Sigmundur hvort ráðherra geti hugsað sér að fyrirhuguð gjaldtaka renni „í þetta borgarlínufyrirbæri“ sem muni þrengja enn meira að umferð á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er ekki talað um aðgerðir sem raunverulega væru til þess fallnar að greiða fyrir samgöngum heldur þvert á móti á að halda áfram á þeirri braut að þrengja að umferðinni og refsa mönnum svo sérstaklega fyrir það að sitja fastir með einhvers konar nýjum gjöldum,“ sagði Sigmundur.

Bjarni svaraði því að borgarlína eigi þvert á móti að greiða fyrir umferð.

„Það þarf að reisa þessa vegi en þar geta líka hópferðabílar farið um, eins og ég sé þetta, leigubifreiðar og jafnvel fólk sem kemur sér saman í bíl, þar sem eru kannski þrír eða fleiri í sama ökutækinu. Aðalatriðið er að samkomulagið sem er í smíðum er um stórfellda uppbyggingu á samgöngum á höfuðborgarsvæðinu til að greiða fyrir umferð,“ sagði Bjarni Benediktsson.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi