Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Náttúruvernd er stórt efnahagsmál“

15.09.2019 - 14:18
Mynd: RÚV / RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segist ósammála þeim gagnrýnendum sem segja hann ekki fara að lögum um friðlýsingar. Hann hefur meðal annars verið sakaður um að ógna stjórnarsamstarfi.

Guðmundur Ingi var í viðtali í Silfrinu á RÚV í dag þar sem hann svaraði fyrir þessar ásakanir. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði meðal annars á dögunum að aðferðarfræði ráðherrans standist enga skoðun. Þá hefur Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri tekið undir það.

„Ég er ósammála því að þarna sé ég ekki að fara að lögum. Ef við skoðum það sem kemur að friðlýsingum gegn orkunotkun, þá eru það þau svæði sem Alþingi ákvað að yrðu friðlýst árið 2013. Ég var ekki á Alþingi þá,“ sagði Guðmundur Ingi og sagðist aðeins vera að framfylgja vilja Alþingis og því sem stendur í stjórnarsáttmálanum um að ráðast skuli í átak í friðlýsingum.

„Við erum virkilega að byggja upp í kringum náttúruverndina. Við erum að því vegna þess að rannsóknir sýna að fyrir hverja krónu sem við setjum inn í friðlýst svæði eru 23 krónur að meðaltali að skila sér til baka. Stór hluti af því verður eftir heima í héraði. Náttúruverndin er ekki bara náttúrunnar vegna, hún er líka stórt efnahagsmál.“

Mismunandi framtíðarsýn

Þá svaraði hann þeim sem segja hann ganga of langt og að friðlýsingar hamli orkuframleiðslu og dreifingu á raforku á landinu.

„Mergur málsins er sá að þarna takast á mismunandi sýnir á framtíðina. Þau sem hafa verið að gagnrýna þetta eru að tala fyrir því að það verði virkjað meira, vegna þess að þau segja að ég sé að seilast í of mikið svæði til að vernda. Þá snýst þetta um það hvaða framtíðarsýn við höfum. Viljum við virkja meira til þess að efla atvinnulífið? Ég vil meina að það sé gamli tíminn.

Sú sýn sem ég horfi á er að við lítum til baka eftir nokkur ár með stolti vegna þess að við höfum tekið frá land fyrir komandi kynslóðir og eflum þá atvinnuvegi sem hægt er að vera með í sátt við náttúruna. Það er ferðaþjónustan sem er þar gríðarlega stór. En það mun líka koma sér vel fyrir ímynd Íslands,“ sagði Guðmundur Ingi.

Er á móti því að virkja verðmæt svæði

Meðal þess sem hefur verið í umræðunni er fyrirhuguð Hvalárvirkjun í Árneshreppi.

„Þarna eru gríðarlega mikil náttúruverðmæti. Þetta er svæði sem hefur allt að bera til þess að vera friðland. Ég held að við séum mjög mörg sammála um það. Ég held að það sé ekkert leyndarmál að minn hugur stefnir ekki til þess að ráðast í virkjanir á svæðum sem eru mjög verðmæt,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra í Silfrinu.