Náttúrugripasafnið á Akureyri hafði verið starfrækt í áratugi þegar því var pakkað í plast og pappakassa vegna húsnæðisskorts. Og enn er safnið í kössum, nokkur hundruð safngripir.
Hluti safnsins ónýtur og aldrei notaður framar
„Það munu vera um tveir áratugir eða svo, síðan það var tekið niður,“ segir Þórgnýr Dýrfjörð, framkvæmdastjóri Akureyrarstofu. En á heildina litið séu gripirnir í nokkuð góðu standi, miðað við að hafa legið í geymslu í nærri 20 ár. Þetta staðfestir Haraldur Ólafsson, hamskeri á Akureyri, sem var fenginn til að kanna ástand safnsins. Þó séu viðkvæmir gripir orðnir ónýtir og hluti safnsins verði aldrei notaður framar.
Uppstilling gripanna úrelt
Þess utan segir Þórgnýr að uppstilling gripanna og framsetning sé að stóru leyti orðin úrelt. „Þannig að ég geri ráð fyrir að ef þetta safn væri búið að vera uppi allan tímann þá væri búið að endurnýja mjög marga gripi. Þannig að ef við ætluðum að byrja núna, þá værum við að stóru leyti að byrja á núllpunkti.“
Mjög dýrt að sýna safnið á ný
Til stóð að nota safnið á sýningu um norðurslóðir sem opnuð var á Akureyri nýlega. En þar leist mönnum ekki á ástand gripanna og þáðu frekar safn mun nýrri gripa frá Siglufirði. En Þórgnýr segir að fólk sem man safnið í sinni bestu mynd sakni þess alltaf. Það sé hins vegar stór ákvörðun að sýna það á ný. „Þannig að það er mjög margt sem þarf að gera og það yrði mjög kostnaðarsamt að koma upp, eigum við að segja, nútímalegu safni sem myndi draga að sér marga gesti. Það er stærri ákvörðun heldur en bara að taka ákvörðun um að opna þessa kassa,“ segir Þórgnýr.
>>