Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Náttúran má bara fá að sjá um þetta“

19.07.2019 - 19:00
Mynd: Greta Carlson / RUV
Hátt í fimmtíu grindhvalir sem strönduðu á Gömlueyri á Löngufjörum á sunnanverðu Snæfellsnesi eru á ábyrgð landeiganda. Einn þeirra segir að næstu skref séu í höndum náttúrunnar. 

Mikill munur er á flóði og fjöru á Mýrum. Það ásamt straumum gæti hafa gert hvölunum erfiðara fyrir að komast aftur til sjávar. Ekki er vitað hvenær hvalirnir strönduðu en þeir eru allir dauðir. Umhverfisstofnun, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og heilbrigðiseftirliti Vesturlands hefur verið gert viðvart um hvalina sem strönduðu á landi í einkaeigu. Ábyrgð á þeim fellur þar með á landeiganda. Landið er í eigu tveggja fjölskyldna. Gunnar Kristinn Gylfason er einn landeiganda.

„Þetta er Gamla Eyrin, þetta eru Löngufjörurnar. Mamma mín ólst þarna upp á Litla-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi og hún tjáði mér það á sínum tíma að það hafi verið hvalreki þarna og þau reynt að nýta sér það í búið. En við fórum þarna oft saman niður Löngufjörurnar og niður á Gömlueyri. Þetta er erfitt svæði yfirferðar og hérna farið á fjöru og flóði þannig að maður þarf að passa sig svolítið á þessu svæði og kannski hafa grindhvalirnir einmitt ekki áttað sig á þessu. Þannig að það hefur gerst áður. “ 

Löngufjörur
 Mynd: Fréttir

Hvalirnir liggja nú í fjörunni og er erfitt að komast að þeim. Landið einkennist af víðáttumiklum fjörum. Það getur verið afar hættulegt yfirferðar og því er ekki á færi hvers sem er að komast að hvölunum. 

„Ég held að miðað við hvernig svæðið er og hversu torvelt þetta er og þessar fjörur langar að þá held ég að náttúran megi bara fá að sjá um þetta eins og hún gerir svo vel og hefur gert í mörg ár og þetta muni losa sig nokkuð hratt og vel, “ segir Gunnar.