Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

NASA prófar sjálfkeyrandi jeppa á Íslandi

19.05.2019 - 20:09
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Þór Pétursson
NASA prófar sjálfkeyrandi jeppa hér á landi í sumar fyrir næstu ferð til Mars. Nemendur í Háskólanum í Reykjavík, sem taka þátt í undirbúningnum, segja að þau komi hingað því landslagið svipar til plánetunnar.  

„Við erum að undirbúa komuna þeirra. Gera allt tilfallandi til dæmis skoða netsamband á svæðinu. Redda þeim myndum af svæðinu. Skoða leyfin sem þarf fyrir þá. Svo í júlí þegar þau koma þá förum við á vettvang og erum að vinna með þeim mjög náið.“ segir Hilmar Þór Pétursson, flokkstjóri verkefnisins.

Áætlað er að ferðin til Mars verði á næsta ári. Frumgerð af Mars-jeppa með sjálfökubúnaði kemur hingað til lands í júlí og verður prófuð á Lambahrauni, norðan við Hlöðufell. Þar er basalt-sandur sem svipar til landslagsins á Mars. Vísindamennirnir hafa sérstakan áhuga á farvegi í sandinum á þessu svæði sem myndast eftir vatn undan Langjökli. 

„Sandurinn virkar svipað og eins og þú finnur á tunglinu og mars og mikið af plánetum. Þetta er kjörið tækifæri til að prófa nýju tækin þeirra sem þau ætla að senda út. Þetta hefur ekki gerst á Íslandi í tuttugu til þrjátíu ár að NASA komi hingað til lands til að undirbúa sig fyrir ferðir,“ segir Hilmar Þór jafnframt.

„Að fá að vinna með NASA er einstakt tækifæri og fá að sjá þá vinna og læra með þeim er bara frábært,“ segir Friðrik Hover, nemandi við HR.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV