Nándin á tímum tveggja metra fjarlægðar

Mynd: Pexels / Pexels

Nándin á tímum tveggja metra fjarlægðar

21.03.2020 - 15:24

Höfundar

Sigurlín Bjarney Gísladóttir rithöfundur flytur nýja pistlaröð í Víðsjá og á menningarvef RÚV sem nefnist Hugleiðingar um undarlega tíma. Fyrsti pistilinn fjallar um nándina á tímum COVID-19 veirunnar.

Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifar:

Það eru heldur betur breyttir tímar sem eru bæði sérstakir og eftirminnilegir. Ný orð dúkka upp eins og viðbragðsaðilar, framvarðasveit, bakvarðasveit, sóttkví, einangrun og smitrakning. En hvað verður um nándina á tímum tveggja metra fjarlægðar? Nándin og mannleg hlýja á undir högg að sækja. Að standa nálægt, faðmast, kyssast, heilsast og klappa á bakið er okkur í blóð borið, þannig sýnum við hlýju, vináttu og ást. Allt í einu er búið að snúa öllu á hvolf, við megum ekki lengur heilsast og snertast. Við þurfum að halda tveggja metra fjarlægð og þá þurfum við að hugsa hlutina upp á nýtt, finna nýjar aðferðir til að heilsast, nýjar leiðir til að sýna hlýju og viðhalda nánd. Tungumálið kemur sterkt inn sem heilandi afl því orðin fara ekki í sóttkví og tungumálið verður aldrei skikkað í einangrun. Nú reynir á að við tjáum vináttu í orðum en líka með augngotum eða jafnvel dansi. Ítalir syngja sín á milli og aðrir hafa tekið upp söng á svölum fjölbýlishúsa við mismunandi fögnuð nágranna. Aðlögunarhæfni okkar mannanna er aðdáunarverð og kannski verður þetta til þess að við þróum með okkur samsöng, danskveðjur og fjarlægðarsamtöl. Förum út á svalir að syngja, hrópum á milli húsa.Vonandi koma fjarskipti ekki alfarið í staðinn fyrir samskipti.

Það er margt sem þýtur í gegnum hugann á þessum viðsjárverðu tímum. Hvernig fara glæpsamleg viðskipti fram? Hvað gera dópsalar nú? Munu skyndikynni og vændisiðnaðurinn hverfa tímabundið? Hvernig aðlagar skipulögð glæpastarfsemi sig að veirunni? Hvaða breytingar verða á nýjum kynnum og stefnumótum? Mun afþreyingarefnið bjarga okkur? Hvers eiga orgíur að gjalda?

Það er búið að biðja mig svo oft um að fylgja fyrirmælum sóttvarnarlæknis að það hefur blossað upp í mér mótþrói. Ef ég er beðin of oft um að fylgja fyrirmælum þá hrópar allt í mér að vera sjálfstæð og hlýða ekki. En þessir tímar bjóða ekki upp á mótþróaþrjósku og við verðum öll að halda okkur á fjarlægðarmottunni hnerrandi í olnbogabótina.

Ég verð að viðurkenna að ég heillast í öruggri fjarlægð (sem er eitt og sér óábyrgt, ég viðurkenni það) af starfsfólki smitrakningarteymis. Mig dreymir um að stunda smitrakningar, að rekja mig eftir hversdagslegu lífi fólks og sjá hverjir hitta hverja og hvenær. Hversu hratt getur ein manneskja smitað mörg hundruð manns? Ég sé það fyrir mér hvernig ég gæti rakið ferðir einnar manneskju til  ástkvenna og ástsveina og dópsalans og vopnasalans og þar fram eftir götunum. Veiran spyr ekki um sakarvottorð og því getur smitrakning mögulega komið upp um ýmislegt misjafnt. En nú er ég komin fram úr mér og af virðingu við smitaða og smitrakningarteymið læt ég staðar numið hér.

Það er ekki nóg með að margir glími nú við kvíða, ótta og óvissu heldur kæmi það ekki á óvart ef þeir sem þegar hafa smitast glími við sýkingarskömm eða jafnvel smitskömm. Svo er spurning hvort þau sem smitast á tímum samkomubanns fái samkomuskömm, nándarskömm?

Þeim tilmælum hefur verið beint til okkar að snerta ekki andlitið. Í móðurkviði lágum við í hnipri með hendur sem léku um háls og andlit. Margir sofa með hendur undir vanga og við sækjum öryggi til þessarar frumþarfar. Þegar við erum beðin um að snerta ekki andlitið er á vissan hátt verið að ræna okkur mennskunni. En tilmælin eru skiljanleg, líkurnar á smiti aukast verulega ef veiran kemst inn um augu, nef og munn. Hendur margra þurrkast upp við allan þennan handþvott og sprittið flæðir um samfélagið. Handsápur, handáburður, grímur og hanskar seljast í stórum stíl. Við veifum hvert öðru skorpnum höndum sem mega helst ekki snerta neitt.

Það er gott að sjá áhersluna sem er lögð á það að vernda viðkvæmustu hópana. Álagið á hjúkrunarheimili, sjúkrastofnanir og heilbrigðisstarfsfólk er gríðarlegt. Aldraðir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma mun eflaust finna fyrir fjarlægðinni og skorti á snertingu. Við þurfum öll á snertinu á halda, ekki síst þegar við erum óörugg, sorgmædd eða veik. Kórónaveiran afhjúpar berskjöldun okkar, varnarleysi og vanmátt. Við þurfum að finna leið til að mæta snertiþörf viðkvæmra hópa og þar reynir heldur betur á þá sem annast um aldraða og veika. Þá er gott að muna að eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt og það sama á við um uppörvandi orð.