
„Það fór allt gler í stofugluggunum og í útidyrahurðinni. Klæðningin á þakinu losnaði og járnplötur fóru af hlöðuþakinu,“ segir Guðbergur Baldursson um ástandið á bænum. Hann lét veðurhaminn þó lítið á sig fá og var að gefa í útihúsum þegar fréttastofa náði tali af honum.
Hann segir þó að ástandið hafi sjaldan eða aldrei verið svona slæmt. Faðir hans hafi búið á svæðinu síðan 1943 og man ekki eftir jafn sterkum vindi.
„Það getur verið hvasst hérna, en ekki svona. Þetta var bara rugl,“ segir Guðbergur Baldursson.
Magnús Kristjánsson, formaður björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli, segir að engin útköll hafi borist sveitinni í nótt vegna veðursins. Bændurnir á svæðinu bjargi sér iðulega sjálfir.
„Hér kunna menn að byggja hús!“ sagði Magnús léttur í bragði í samtali við fréttastofu.