Nálgunarbann á mánudag, gæsluvarðhald í gær

22.05.2019 - 16:42
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Maður sem var úrskurðaður á mánudag í sex mánaða nálgunarbann vegna rökstudds gruns um að hafa beitt fyrrum sambýliskonu sína líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi, var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í gær. Maðurinn neitaði að afhenda aðgangsorð að síma sínum ásamt því að lögreglan taldi hann geta spillt rannsóknarhagsmunum.

Barnsmóðir mannsins lagði fram kæru í byrjun árs vegna kynferðisbrot og upplýsti þá um mikið andlegt ofbeldi sem hafði spanað yfir fjögur ár. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að þegar konan vísaði honum af heimilinu trylltist hann og beitti hana líkamlegu ofbeldi. Hann sendi svo 121 tölvupósta sem innihéldu nektarmyndir af henni á 235 mismunandi tölvupóstföng, þar á meðal fjölskyldu, vina og samstarfsmanna hennar. 

Landsréttur staðfesti á mánudag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur nálgunarbannið. Þar kom fram að þau gögn sem lögregla hefur undir höndum bera með sér að konunni stafi ógn af manninum og að hún hafi sætt ofbeldi og ógnunum af hans hálfu og hann valdið henni mikilli vanlíðan og ónæði. 

Í gær staðfesti Landsréttur svo úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Fram kemur að rannsókn málsins sé langt komin en enn eigi eftir að rannsaka svokallaðar sýndartölvur sem lögregla hafi haldlagt. Í ljósi þess að maðurinn neitaði að gefa upp aðgangsorð að síma sínum þurfti að senda símann til útlanda til rannsóknar og er þeirri rannsókn ekki lokið. 

Lögregla taldi að maðurinn geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus, til dæmis með því að eyða rafrænum sönnunargögnum, meðal annars myndum eða rafrænum fótsporum sínum, og féllst Landsréttur því á gæsluvarð. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi