Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Nakinn hjólreiðamaður vekur athygli

30.06.2015 - 14:53
Mynd með færslu
 Mynd: FÍB
Átakið Hjól í huga hófst í dag en markmið þess er að efla vitund ökumanna um hjólafólk í umferðinni. Félag íslenskra bifreiðaeigenda lét vinna auglýsingu í tengslum við átakið en í henni hjólar nakinn karlmaður um höfuðborgarsvæðið.

Nektin á að undirstrika það hversu berskjaldað hjólreiðafólk er í umferðinni og það megi lítið út af bregða til að það verði fyrir líkamstjóni. FÍB lét einnig gera 50 þúsund gula límmiða til að líma í baksýnisspegla bíla til að minna ökumenn á að hafa hjólin í huga.

Hugmyndin fæddist hjá starfsmanni systurfélags FÍB í Bretlandi. Hún var upphafið að breska átakinu Think Bike! en það vakti mikla athygli. Heimssamtök bifreiðaeigendafélaga, FIA, tók hugmyndina upp á sína arma og hefur stutt viðlíka herferðir um allan heim.

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV