Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nágrannaríkin að gera það sem við vorum búin að gera

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Forsætisráðherra segir að þær ráðstafanir í ríkisfjármálum sem gerðar voru í fyrra í tengslum við lífskjarasamningana og tóku gildi á þessu ári hefðu ekki getað komið á betri tíma, nú þegar efnahagslegra áhrifa af COVID-19 veirunni fer að gæta.

Þetta kom fram í svari Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þingmanns Viðreisnar, á Alþingi í dag.

Þorgerður Katrín hrósaði ríkisstjórninni og Almannavörnum fyrir skjót og góð viðbrögð við útbreiðslu veirunnar. Hins vegar kallaði hún eftir aðgerðum af hálfu stjórnvalda til að bregðast við efnahagslegum áhrifum veirunnar. Þar væri þörf á aðgerðum og það strax.

Katrín svaraði því til að Ísland stæði betur en aðrar þjóðir í þessum efnum. „Ég tel að okkar skattatillögur sem voru samþykktar hér fyrir áramót en ganga nú í gildi, hvort sem það er lækkun tekjuskatts á hina tekjulægri eða lækkun tryggingagjalds, þær gætu ekki hafa komið á heppilegri tíma til þess að sporna gegn slaka í efnahagslífinu og auka ráðstöfunartekjur. Ég er að fylgjast með því sem önnur ríki eru að gera, þau eru að gera þetta núna sem við vorum búin að gera."

Bætti Katrín við að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir vegna ferðaþjónustunnar því kallað sé eftir því að stjórnvöld og aðilar í ferðaþjónustu vinni saman að því hvernig bregðast eigi við fækkun ferðamanna.

 

Magnús Geir Eyjólfsson