Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Nafni Hallsvegar ekki breytt í Fjölnisbraut

10.02.2017 - 11:40
Mynd með færslu
Fjölnir fær ekki götu nefnda eftir sér. Mynd: RÚV
Borgaryfirvöld hafa hafnað tillögu frá hverfisráði Grafarvogs þess efnis að nafni Hallsvegar, sem liggur í gegnum hverfið frá Gullinbrú að Víkurvegi, verði breytt í Fjölnisbraut. Grafarvogsbúar telja þetta við hæfi þar sem starfsemi Fjölnis er við götuna en nafnanefnd taldi það ekki næga ástæðu til að breyta nafninu á götunni.

Tillaga nafnanefndarinnar var lögð fram í síðasta mánuði. Í umhverfis- og skipulagsráði lýstu fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina yfir stuðningi við að breyta nafni Hallsvegar. Gatan liggi meðfram keppnisíþróttavelli hverfisins og sundlaug sem íþróttafélagið Fjölnir starfrækir. Engin hús séu við götuna og það trufli því enga starfsemi að breyta um nafn. Vísað er í það fordæmi þegar nafni á götunni Bratthöfða var breytt í Svarthöfða í höfuðið á samnefndri kvikmyndapersónu. 

Nafnanefndin féllst ekki á þessu rök. Heiti gatna sé hluti af þróunarsögu Reykjavíkur og myndi því stóran kafla í safni örnefna í landi Reykjavíkur. Það sé að öllu jöfnu ekki talið rétt að breyta götuheitum og þau rök að um mikilvæga starfsemi sé að ræða teljist ekki næg ástæða til að breyta eldri götuheitum. Slæmt fordæmi myndi skapast af þessari breytingu því að ætla mætti að mörg starfsemin teldi sig til þess komin að eftir henni yrði nefnd gata í Reykjavík. Undir þetta tóku meirihluti bæði umhverfis- og skipulagsráðs og borgarráðs.

Nefndin tók einnig fyrir, auk þessarar tillögu, nöfn á götu í fyrsta hluta Vogabyggðar, sem liggur til austurs frá gatnamótum Kleppsmýrarvegar og Kjalarvogs. Nefndin lagði til að gatan héti Barkavogur. Það væri fornt skiptsheiti og í anda annarra gatnanafna í hverfinu. Borgarráð samþykkti þá tillögu.

Einnig var lagt til að torg sem verður á horni Tryggvagötu og Pósthússtrætis heiti Bæjartorg. Það nafn er sótt í Bæjarbryggju, sem var fyrsta bryggjan sem reist var á vegum yfirvalda í Reykjavík árið 1884 og lá beint út af Pósthússtræti. Nafnið breyttist svo í Steinbryggju átta árum síðar þegar hún var endurbætti og tré skipt út fyrir grjót. Þessi tillaga hlaut einnig náð fyrir augum borgarráðs.

Þá gerði nafnanefndin einnig tillögu um gatnanöfn í Vísindagörðum sem eiga að rísa í Vatnsmýrinni. Samkvæmt þeirri tillögu mun Njarðargata sunnan Hringbrautar breytast í Bjarnargötu. Það er í höfuðið á Birni M. Ólsen, fyrsta rektor Háskóla Íslands. Nýjar götur sem yrðu til þar myndu svo heita Torfhildargata (eftir Torfhildi Hólm, fyrsta Íslendingnum sem hafði atvinnu af ritstörfum),  Bjargargata (eftir Björgu Caritas Þorláksson, fyrstu konunni sem lauk doktorsprófi) og Ingunnargata (eftir Ingunni Arnórsdóttur, fyrstu konunni sem var kennari á Íslandi). Nefndin lagði svo til að torg á svæðinu verði nefnt Jónasartorg eftir Jónasi Hallgrímssyni skáldi, en umhverfis- og skipulagsráð lagði til að það  yrði nefnt Jónasar Hallgrímssonar torg. Borgarráð frestaði hins vegar afgreiðslu þessara nafnatillagna.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV