
Nær tvöfalda herbergjafjölda í Flókalundi
Veitingaskáli í Flókalundi var opnaður 1961 í kjölfar þess að vegur Dynjandisheiði var tekinn í notkun. Í framhaldi hófst hótelrekstur sem hefur verið þar óslitið síðan. Húsnæðið og starfsemin hefur vart breyst frá opnun og því óhætt að segja að viðbótin sé stórt skref.
Herbergjum verður fjölgað úr 15 í 27 og eru nýju herbergin stærri og betur búin. Sævar Pálsson, einn eigenda Hótels Flókalundar segir kröfur gesta hafa breyst á hálfri öld.
„Já, mikil ósköp. Að vísu þegar húsið er byggt 1972, það er að segja gistihlutinn, þá var mikil framsýni. Þeir byggðu allt með sturtu og klósetti inni á öllum herbergjum á þeim tíma. En þau þykja lítil, það eru breyttir tímar í dag,“ segir hann.
Hótelið hefur einungis verið opið yfir sumarið, en Sævar segir að það gæti breyst með bættum vegasamgöngum á Vestfjörðum.
„Við sjáum fram á það að vegur mun breytast. Nú eru að koma göng á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Væntanlega mun þá umferð breytast hérna líka og þá tímabilið sem við erum með opið myndi lengjast. Það er svona það sem við bindum okkar vonir við að gerist,“ segir hann.

