Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nær hálfur milljarður greiddur eftir að Jóhannes hætti

13.11.2019 - 13:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samherji greiddi háttsettum mönnum í Namibíu og venslamönnum þeirra um hálfan milljarð króna, eftir að uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson hætti hjá fyrirtækinu, og allt fram á þetta ár.. Samherji varpar allri ábyrgð á Jóhannes.

Fréttastofa hefur í dag reynt að ná í Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra og annan aðaleigenda Samherja, Kristján Vilhelmsson, hinn aðaleigandann, og Eirík S. Jóhannsson stjórnarformann. Þorsteinn Már vildi ekki koma í viðtal í gærkvöld, og einu viðbrögðin sem komið hafa frá Samherja eftir þátt Kveiks eru yfirlýsing sem var birt á vef fyrirtækisins í gærkvöld.

Í yfirlýsingunni er haft eftir Þorsteini Má að það hafi verið fyrirtækinu mikil vonbrigði að komast að því að uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi rekstrarstjóri Samherja í Namibíu, virðist hafa tekið þátt í gagnrýniverðum viðskiptaháttum og hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunni að vera ólögmæt. Þorsteinn Már varpar sem sagt allri ábyrgð á uppljóstrarann.

En gögnin sem Kveikur fjallaði um, í samstarfi við Wikileaks, Stundina og Al Jazeera, sýna að greiðslur héldu áfram eftir að Jóhannes hætti hjá Samherja 2016, og að frá ársbyrjun 2017 og allt fram á þetta ár hafa farið fram yfir 40 greiðslur upp á samtals tæplega 500 milljónir króna að núvirði.

Kristinn Hrafnsson, ristjóri Wikileaks, segir viðbrögð Samherja ekki koma á óvart.

„Það er alltaf ráðist á uppljóstrarann, þann sem segir frá. Hann verður fyrir persónuárásum, og hann hefur þegar orðið fyrir þeim,“ sagði Kristinn í Morgunútvarpinu á Rás 2.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV