Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nær allir vilja rafbíl

11.01.2018 - 15:50
Mynd: RÚV / RÚV
Meirihluti landsmanna telur að stjórnvöld og íslenskir stjórnmálamenn geri of lítið til að takmarka gróðurhúsalofttegundir á Íslandi. Tæplega 60 af hundraði hafa áhyggjur af þeim afleiðingum sem loftslagsbreytingar geta haft. Um 87% landsmanna geta hugsað sér að kaupa rafmagnsbíl eða aðra bíla sem nota vistvæna orku.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfangsmikilli könnun sem Gallup hefur gert á afstöðu fólks til umhverfismála. Gallup hefur kannað um hríð áhuga fólks á umhverfismálum, sem hefur klárlega aukist. Um aldamótin voru 18% áhugasöm en nú segjast 37% hafa áhuga eða nærri fjórir af hverjum tíu. 77% telja að helsta áskorunin sem Ísland standi frammi fyrir tengist heilbrigðismálum og 42 af hundraði mál sem tengjast misskiptingu og fátækt. Næst koma samgöngu- og menntamál. Umhverfismálin eru í fimmta sæti þar sem 23% telja þau vera meðal helstu áskorana. Þeir sem voru spurðir voru beðnir um að gefa stjórnvöldum stjörnugjöf um frammistöðuna í umhverfismálum frá einni upp í sex stjörnur. 17% gáfu stjórnvöldum eina stjörnu og 7% fullt hús eða sex stjörnur. Hlutfallslega flestir, 31%, gáfu 3 stjörnur. Meðaltalið er 2,9 stjörnur sem er aðeins minna en Norðmenn gáfu sínum stjórnvöldum, sem var 3,1 stjarna. Og fram kemur að meirihluti vill að stjórnvöld geri meira til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Margir með hugann við rafbílakaup

Könnunin tekur á ýmsum málum, meðal annars áhuga landsmanna á rafbílum. 8% segjast nú þegar eiga rafbíl eða tengiltvinnbíl. Hins vegar geta 83% hugsað sér að kaupa bíl sem knúinn er með vistvænum orkugjöfum. Flestir eða 57 af hundraði geta hugsað sér að kaupa tengiltvinnbíl og næstflestir rafbíl 49 af hundraði.

Fólk bíður eftir stefnu stjórnvalda

Kristín Lind Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar segir að könnun Gallup hafi mikið gildi. Hún sýni t.d. að almenningur er til í orkuskipti. Þá flokki Íslendingar úrgang þó auka verði flokkunina. En kemur það henni á óvart hve lága einkunn stjórnvöld fá þegar kemur að aðgerðum í umhverfismálum?

„Við eru kannski dálítið undrandi vegna þess að við sem erum í þessum geira erum oft í útlöndum. Þar er oft verið að dást að okkur, hvernig okkur tókst að vera með okkar græna orkukerfi, hitaveituna og fleira. En almenningur lítur kannski að sjálfsögðu á þetta sem sjálfsagðan hlut. Þetta er bara okkar líf í dag. Þannig að við erum að fá hrós erlendis frá fyrir hluti sem voru gerðir fyrir löngu síðan. Íslenskur almenningur býr við þetta og hann vill fara að sjá næstu skref,“ segir Kristín.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands segir að mikil þörf sé fyrir könnun sem þessa. Gallup hafi gert svipaða könnun fyrir samtökin fyrir tveimur árum. Hún hafi sýnt svipaðar niðurstöður um að almenningur telji að stjórnvöld þurfi að gera miklu meira í umhverfismálum. Hann segir að fólk sé að bíða eftir stefnu stjórnvalda sem liggi ekki fyrir. En erum við illa á vegi stödd t.d. hvað Kýótó-samkomulagið varðar?

„Ég held að við séu illa á vegi stödd um allan heim. Við erum bara hluti af þessum heimi sem verður að takast á við þetta vandamál. Okkar málstaður er aldrei betri en sá sem við getum flutt vegna þess sem við gerum heima fyrir. Við verðum að vinna heimavinnuna til þess að hafa trúverðugleika þegar við köllum á aðrar þjóðir að standa sig,“ segir Árni.

 

 

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV