Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nær 60% Reykvíkinga styðja verkfallsaðgerðir Eflingar

09.03.2020 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson - RÚV
Fimmtíu og átta prósent Reykjavíkinga styðja verkfallsaðgerðir Eflingar í borginni að hluta eða öllu leyti, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups. Tuttugu og sjö prósent styðja þær ekki eða að litlu leyti. Stuðningur Reykvíkinga við verkföllin minnkar eftir því sem skólaganga fólks er lengri.

Stuðningurinn er aðeins minni hjá íbúum nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur, en meðal þeirra styðja um fjörutíu og fjögur prósent verkföllin að öllu eða miklu leyti, tuttugu og sjö prósent styðja þau að litlu leyti eða alls ekki, en sextán prósent eru hlutlaus.

Meðal íbúa landsbyggðarinnar mælist stuðningur að öllu eða miklu leyti við verkfallsaðgerðirnar hjá fimmtíu og einu prósenti, tuttugu og sex prósent eru hlutlaus en tuttugu og þrjú prósent styðja þær að litlu leyti eða alls ekki. 

Mynd með færslu
 Mynd: Gallup

Stuðningur við verkfallsaðgerðir Eflingar er minni meðal þeirra Reykvíkinga sem hafa lengri skólagöngu að baki en þeirra sem hafa styttri. Sjötíu og níu prósent Reykvíkinga með grunnskólapróf styðja þær að öllu eða miklu leyti en fjörutíu og fjögur prósent þeirra sem eru með háskólapróf.

Mestur stuðningur hjá tekjuhópnum 550.000-999.000 kr.

Meðal þeirra Reykvíkinga sem hafa lægri tekjur en 550.000 á mánuði styðja sextíu og fjögur prósent verkföllin. Í tekjuhópnum 550.000 til 999.000 mælist stuðningurinn mestur, sjötíu og sjö prósent. Hjá þeim sem hafa eina milljón króna eða meira í fjölskyldutekjur á mánuði er stuðningurinn fjörutíu og eitt prósent. 

12% hafa orðið fyrir miklum áhrifum af verkföllum

Nær þriðjungur Reykvíkinga segist ekki hafa orðið fyrir neinum áhrifum af verkfallsaðgerðunum og rúmlega þrjátíu og sjö prósent segjast hafa orðið fyrir litlum áhrifum. Nær nítján prósent hafa hins vegar orðið fyrir nokkrum áhrifum og tæplega tólf prósent miklum áhrifum. Meðal íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur og annarra sveitarfélaga á landinu hafa ríflega átta af hverjum tíu ekki orðið fyrir neinum áhrifum, nær fjórtán prósent fyrir litlum áhrifum og ríflega fimm prósent fyrir nokkrum eða miklum áhrifum.

Könnunin var framkvæmd á netinu 24. febrúar til 2. mars 2020. Úrtakið var 1.573 manns og svöruðu 54 prósent, 18 ára og eldri af öllu landinu, valdir af handahófi úr Viðhorfshópi Gallup.

Fréttin hefur verið uppfærð.