Nær 400 útskrifuð úr Háskóla Íslands

22.02.2020 - 21:11
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Ingvarsson - Háskóli Íslands
Hátt í fjögur hundruð kandidatar voru útskrifaðir frá Háskóla Íslands í dag, 250 konur og 148 karlar.

Jón Atli Benediktsson rektor sagði háskólann hafa vaxið og eflst gríðarlega undanfarin ár og áratugi. Nýlega hafi það verið gert opinbert að hann væri kominn í hóp allra fremstu háskóla heims þegar kæmi að áhrifum á samfélag og nærumhverfi. Framtíðin kalli á aukið alþjóðlegt samstarf um kennslu og rannsóknir. Samstarf háskóla um námsframboð þvert á landamæri muni aukast á komandi árum, ekki síst vegna samstarfsneta háskóla. Öflugt samstarf sé nauðsynlegt til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

„Stærsta áskorunin sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fela í sér er þó ugglaust sú að við þurfum að breyta hugsunarhætti okkar. Þau viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir varða sjálfa lífsmöguleika jarðarbúa og alls lífs á jörðinni,“ sagði rektor. „Þessum áskorunum verður ekki mætt að fullu með átaki einstakra fræðimanna eða fræðigreina. Við þurfum að vinna enn betur saman þvert á fræðigreinar, þvert á þjóðríki og þvert á menningarheima. Til þess þurfum við að leita nýrra lausna og efla nýsköpun í allri hugsun, breyta skipulagi og innviðum og þróa nýja samskiptahætti.“

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV