Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

N-Kóreuher skaut skammdrægum flaugum á haf út

04.05.2019 - 04:42
epa07545888 (FILE) - South Koreans look at a North Korean Scud-B Tactical Ballistic Missile (C) on display at the Korean War Memorial Museum in Seoul, South Korea, 07 March 2019 (reissued 04 May 2019). North Korea has fired several short-range missiles from the Hodo peninsula into the Sea of Japan.  EPA-EFE/JEON HEON-KYUN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Norður-kóreski herinn skaut í nótt allmörgum, skammdrægum eldflaugum á loft, í fyrstu eldflaugatilraunum sínum síðan 2017. Suður-kóreska fréttastofan Yonhap greinir frá þessu. Er þar haft eftir talsmanni Suður-Kóreuforseta að verið sé að fara yfir öll tiltæk gögn um eldflaugaskotin til að greina nákvæmlega hvers kyns stríðstólin eru, sem skotið var út í Japanshafið.

 Samkvæmt heimildum Yonhap var eldflaugunum skotið frá umráðasvæði hersins nærri hafnarborginni Wonsan á austurströnd Norður Kóreu og flugu þær allt að 200 kílómetrum á haf út. Fyrstu fréttir hermdu að einungis einni eldflaug hefði verið skotið í nótt, en AP-fréttastofan telur sig hafa heimildir fyrir því að þær hafi verið töluvert fleiri og flogið á bilinu 70 - 200 kílómetra vegalengd áður en þær lentu í sjónum.

Flaugunum var skotið upp um klukkan níu að morgni að staðartíma, eða um miðnæturbil að íslenskum tíma. Norður-Kóreumenn skutu síðast eldflaugum á loft í nóvember 2017, skömmu áður en þreifingar Pjongjang-stjórnarinnar um viðræður við leiðtoga Suður Kóreu og Bandaríkjanna fóru á fullt skrið.

Skammdrægar flaugar ekki í bága við loforð Kims

Þar sem eldflaugarnar sem skotið var nú virðast vera skammdrægar telst tilraunin ekki á skjön við þau fyrirheit sem Kim Jong-un hefur gefið um að láta af öllum tilraunum með meðal- og langdrægar flaugar, og þá sérstaklega stýriflaugar. Stjórnmálaskýrendur telja engu að síður að með eldflaugaskotunum vilji Kim sýna óánægju sína með Bandaríkjastjórn, eftir að viðræður þeirra Donalds Trumps í Víetnam runnu út í sandinn á dögunum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV