Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Myrtu fjórtán kirkjugesti í Búrkína Fasó

02.12.2019 - 03:14
epa06582642 Security forces patrol in the streets of Ouagadougou in the aftermath of an alleged terrorist attacks, in the capital Ouagadougou, Burkina Faso, 05 March 2018. According to reports at least 28 people have been killed and dozens left wounded in the attacks on the French Embassy and miltary headquarters in Ouagadougou on 02 March.  EPA-EFE/LEGNAN KOULA
 Mynd: epa
Þungvopnaðir menn réðust í gær inn í kirkju í Búrkína Fasó og myrtu þar fjórtán manns áður en þeir flýðu af vettvangi á mótorhjólum. Börn voru á meðal hinna myrtu og prestur safnaðarins líka. Fjöldi kirkjugesta særðist í árásinni, sem gerð var í bænum Hantoukoura, nærri landamærunum að Níger. Haft er eftir heimildarmönnum úr hernum að árásarmennirnir hafi verið um það bil tólf talsins og gengið fram af algjöru miskunnarleysi. Þeirra er nú leitað af her og lögreglu.

Töluvert hefur verið um árásir á kirkjur og samkomuhús kristinna í Búrkína Fasó á þessu ári og hafa nú 35 verið myrt í slíkum árásum síðan í febrúar. Árásin í gær var sú mannskæðasta hingað til.

Í maí féllu sex kaþólskir kirkjugestir fyrir hendi vígamanna í bænum Dablo um miðbik landsins og í apríl myrti flokkur illvirkja fimm lúterska kirkjugesti í þorpinu Silgadji í landinu norðanverðu.

Tveir þriðju hlutar íbúa Búrkína Fasó eru íslamstrúar en þriðjungur kristinn. Sambúð hinna ólíku trúarbragða var til skamms tíma giska friðsamleg í landinu en á síðustu misserum hafa vígasveitir öfga-íslamista framið hvert ódæðisverkið af öðru, þar sem fórnarlömbin eru ýmist kristnir söfnuðir eða múslímar sem ofstækismennirnir telja ýmist ekki nógu staðfasta í trúnni eða villutrúarmenn.