Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Myndu vilja 180 hjúkrunarfræðinga til viðbótar á LSH

16.01.2020 - 21:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Átakshópur verður skipaður til að finna lausnir á brýnum vanda bráðamóttökunnar og hrinda þeim í framkvæmd. Þetta er sameiginleg niðurstaða fundar heilbrigðisráðherra, landlæknis og forstjóra Landspítalans sem haldinn var í heilbrigðisráðuneytinu í dag.

Velferðarnefnd Alþingis hefur fundað alla vikuna með fagfólki úr geiranum til að finna lausnir á vanda Landspítalans. 

„Við höfum áætlað að það séu svona um 180 hjúkrunarfræðingar sem við myndum vilja ráða inn á Landspítalann til að veita þá þjónustu sem við þurfum að veita,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar LSH.

Um 400 hjúkrunarfræðingar starfi nú við eitthvað annað en hjúkrun. Unnt væri að höfða til þeirra ef kjör og starfsaðstæður væru betri á heilbrigðisstofnunum.

„Það er náttúrulega okkar að tryggja það að heilbrigðisstofnanirnar okkar séu samkeppinshæfar um þetta fólk. Síðan er brýnt að fjölga í hópnum. Það kemur svo sannarlega ekki til með að verða skortur á verkefnum fyrir þetta fólk á næstu árum. Þörfun fyrir þetta fagfólk á bara eftir að aukast,“ segir Sigríður.

Fjölgun hjúkrunarrýma, efling heilsugæslunnar, fjölgun dagdvalar- og endurhæfingarrýma ásamt aukinni heimahjúkrun eiga samkvæmt yfirlýsingunni sem undirrituð var í dag að létta álagið á bráðamóttöku Landspítlans Innan fárra vikna verður opnað nýtt tæplega 100 rýma hjúkrunarheimili við Sléttuveg í Reykjavík og er ljóst að tilkoma þess mun hafa mikil áhrif. 

„Við setjum saman átakshóp sem að hefur það sérstaka umboð og verkefni að breyta þeirri stöðu sem að uppi er á bráðamóttöku Landspítalans þannig að sjúklingar liggi ekki þar á göngum. Þetta er verkefni sem má ekki taka langan tíma. Við þurfum að setja hópinn saman og við munum gera það strax á morgun. Það er góð samstaða bæði með embætti Landlæknis og Landspítala og ráðuneytinu að ráðast í þetta með þessum óvenjulega hætti,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.