Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Myndir í misgóðum fókus

Mynd með færslu
 Mynd: Fríða Dís - Myndaalbúm

Myndir í misgóðum fókus

16.02.2020 - 13:00

Höfundar

Myndaalbúm er sólóplata Fríðu Dísar, sem er líkast til þekktust fyrir að hafa sungið með Klassart. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Söngkonan Fríða Dís er kunn úr Klassart en hefur og verið í sveitunum Eldar og Trilogia. Hér snarar hún hins vegar fram sólóplötu. Efnið er samið á sex ára tímabili og stjórnaði Fríða útsetningum ásamt því að leika á bassa, rafmagnsgítar, flautu, sjá um áslátt og syngja. Upptökur hófust fyrir ári þegar Smári bróðir hennar lét úr vör með þær í Stúdíó Smástirni og var þeim síðan haldið áfram í haust hjá Stefáni Erni Gunnlaugssyni í Stúdíó Bambus. Þeir félagar lögðu og gjörva hönd á plóg í hljóðfæraleik. Einnig lögðu lið þeir Kristinn Snær Agnarsson, Óskar Guðjónsson, Matthías Stefánsson og félagar úr Bartónum.

Skruðningar

Platan hefst með vínylskruðningi og svo fer titillagið af stað, hægt blúsrokk með smá Twin Peaks brag (Julee Cruise kemur í hugann). Höfug stemning og dumbungsleg og lagið letilega sungið af Fríðu. Hallærislegar bakraddir spilla hins vegar stemningunni mjög. Blátt portrett er í svipuðum ham, blúsað og rólegt. Sár er næst, lag sem er fremur rýrt í roðinu. Orðið sár er síendurtekið í gegnum fremur hugmyndasnauða framvindu. Kisa Kahlo er tilraunakennt millispil, sem er skemmtilegt, en svo beitir Fríða fyrir sig frönsku, í laginu Paradísardraumur, Vol. 1. Óspennandi lag en Paradísardraumur, Vol. 2 er mun betra, gott grúv (súrkálslegt) og hæglega það besta hér. Óvenjulegt og vel heppnað og fær mann til að sperra eyrun. Baristublús er hefðbundið blúspopp, sæmilegt, og plötunni er lokað með Surmeli sem býr yfir þessari hæggengis rökkurstemningu sem oft er ýjað að en aldrei almennilega unnið úr.
 

Stuðandi

Hljómur plötunnar er stuðandi, óvenju kaldur og steríll einhvern veginn og ekki bætir það heildarupplifunina. Fjarlægur, frekar en innilegur. Myndaalbúm er um margt undarleg plata, verður að segjast, og höfundi mislagðar hendur út í gegn svo ekki sé nú meira sagt. Sumar „myndirnar“ í albúminu sitja fallega á bakvið plasthulstrið og eru til prýði á meðan aðrar hanga hálfar inni, klasturslegar. Platan sem slík hljómar eiginlega eins og hálfköruð, sum lögin meira eins og skissur, og ganga þau illa saman mörg. Betra hefði verið að bíða aðeins með útgáfu, semja fleiri lög í svipuðum stíl (eins og Baristublús t.d.) og stilla síðan fram heildstæðara verki, því að þetta lagasafn hér er ekki nándar nægilega sannfærandi.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Fríða Dís - Myndaalbúm

Popptónlist

Kaleo, Jón Jónsson, Fríða Dís og Haf með nýtt