Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Myndaði meðgöngu í skugga geðhvarfa

Mynd: Hulda Sif Ásmundsdóttir / Ramskram / Hulda Sif Ásmundsdó

Myndaði meðgöngu í skugga geðhvarfa

01.08.2019 - 12:44

Höfundar

Hulda Sif Ásmundsdóttir fylgdist grannt með meðgöngu systur sinnar, en ferlið var óvenjulegt þar sem systir hennar er greind með geðhvörf. Í dag verður opnuð sýning þar sem Hulda segir sögu systur sinnar með ljósmyndum.

„Systir mín þráði að verða móðir, en fyrir konu í hennar stöðu er það flóknara ferli en til dæmis fyrir mig, þar sem ég þarf ekki að taka lyf,“ segir Hulda. „Hún þurfti að hætta á lyfjunum á meðgöngunni.“

Systir Huldu er greind með geðhvörf svo þegar hún tilkynnti fjölskyldunni um þessar fyrirætlanir voru allir meðvitaðir um að þeir þyrftu að standa þétt við bakið á henni í ferlinu. 

Mynd með færslu
Ramskram / Hulda Sif Ásmundsdóttir.

Hulda gerði gott betur, en hún var að klára listnám í Haag og ákvað samstundis – í samráði við systur sína – að þetta skyldi verða hluti af lokaverkefninu.

Hún vildi segja sögu systur sinnar, en ekki með því að fylgja henni hvert fótspor, heldur frekar með því að tala við hana og segja svo frá í myndum. Hún valdi að nota Hasselblad-filmuvél og hugmyndin var meðal annars að hægja á ferlinu. „Þetta er ótrúlega viðkvæmt viðfangsefni og persónulegt. Ég vildi ekki vera eins og fluga á vegg og mynda hana í einhvers konar ástandi,“ segir Hulda.

Mynd með færslu
Ramskram / Hulda Sif Ásmundsdóttir.

Hulda segir að með verkefninu hafi þær einnig viljað opna umræðuna, bæði um geðhvörf en einnig þá hindrun sem konur sem greindar eru með sjúkdóminn standi frammi fyrir þegar kemur að barneignum. Hún segir að á lokasýningunni sinni í Haag hafi kona komið að máli við sig og brostið í grát. „Það var vegna þess að hún er sjálf greind og hún hélt þetta væri ekki hægt. Þessi eina manneskja gerði það að verkum að mér fannst þetta allt þess virði.“

Sýning Huldu, Jafnvel lognið er hvasst, verður opnuð í Gallerí Ramskram við Njálsgötu 49 í dag, 1. ágúst, og stendur út mánuðinn

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hafnarfjörður í gegnum linsu 21. aldar

Menningarefni

„Þetta er ekki hætt að vera tabú“

Myndlist

Ný og gömul sjónarhorn á landið

Mannlíf

Andleg líðan á meðgöngu skiptir máli