Myljandi fyndin skáldsaga um íslenskan veruleika

Mynd: Forlagið/RÚV / Forlagið/RÚV

Myljandi fyndin skáldsaga um íslenskan veruleika

15.11.2019 - 10:25

Höfundar

Það er vart sá steinn í mannlegu landslagi sem ekki er snúið við í skáldsögunni Kokkáli eftir Dóra DNA, segir Maríanna Clara Lúthersdóttir gagnrýnandi, sem geri það þó að verkum að sagan fer sjaldan á djúpið. „Það sem Dóri gerir þó best er að ná utan um ákveðinn íslenskan veruleika, stemningu og andrúmsloft á myljandi fyndinn en um leið ansi naskan máta.“

Maríanna Clara Lúthersdóttir skrifar:

Það er stundum holur tónn í skáldsögunni Kokkáli og tómahljóð í aðalsöguhetjunni, Erni, en smám saman rennur upp fyrir lesandanum að það er sennilega með ráðum gert. Yfirþyrmandi ótti Arnar gerir það að verkum að lífi hans er að mörgu leyti bara lifað á yfirborðinu. Lágvær en stöðug rödd meðvirkni og ótta mallar undir í öllum samskiptum hans við annað fólk og brýst upp á yfirborðið í lokaköflum bókarinnar með ófyrirséðum afleiðingum.

Halldór Laxness Halldórsson, öðru nafni Dóri DNA, á að baki fjölbreyttan feril. Hann er kunnur uppistandari, hefur gefið út ljóðabækur, starfað sem dramatúrg við leikhús og nú síðast gert vel heppnaða leikgerð upp úr Atómstöðinni, skáldverki afa síns og nafna sem sýnt er um þessar mundir í Þjóðleikhúsinu. Kokkáll er fyrsta skáldsaga hans. 

Örn er ungur maður á uppleið, í það minnsta við fyrstu sýn. Hann er í ágætri stöðu á auglýsingastofu, á gullfallega kærustu, Hrafnhildi, og lifir skemmtilegu lífi – fer í utanlandsferðir, út að borða, kaupir sér dýran fatnað og svo framvegis. En hann virðist þjást af svokölluðu blekkingar- eða svikaraheilkenni (e. imposter-syndrome) og sú tilfinning er kannski ekki alveg úr lausu lofti gripin: „Einu sinni bilaði tölvan mín og það tók viku að gera við hana. Ég fékk enga aðra tölvu á meðan. Mætti bara í vinnuna, sat við skrifborðið mitt og las tímarit á meðan. Það kippti sér enginn upp við það. Segir kannski mikið um störf mín á stofunni.“

Það er þó frekar bjart yfir honum í upphafi bókar þar sem hann og Hrafnhildur halda til Chicago í skemmtiferð þar sem ætlunin er að sletta ærlega úr klaufunum. Í ferðinni er verslað og djammað og hitta þau meðal annars auglýsingamógúlinn Loft og þeldökka gettógaurinn Tyrone og eftir stanslaust stuð með e-pillum og áfengi lýkur kvöldinu í ófyrirsjáanlegu eftirpartíi á hótelherbergi þeirra skötuhjúa. Eftir þetta kvöld verður ekkert samt í lífi Arnar en vanlíðan hans á þó sennilega einnig rætur að rekja til fortíðinnar. Faðir hans sat í fangelsi fyrir fjárdrátt þegar Örn var unglingur og reyndi það mikið á fjölskylduna. Örn var lagður í einelti vegna glæpa föðurins en þraukaði fyrir tilstilli tveggja vina; Andreu, sem er með downs-heilkenni og Halls, sem er mikill prinsipp-maður og virkar á köflum eins og samviska Arnar í skáldsögunni.

Öll orka Arnar fer í að halda sér á floti í þeim ólgusjó sem líf hans er. Bæði hann og lesandinn hafa mjög óljósa tilfinningu fyrir því hvað hann sjálfur vill eða þráir, annað en bara að vera samþykktur af samfélaginu og umhverfi sínu. Öll sambönd hans bera þess merki, hann er stöðugt að leita að vísbendingum um að það hafi „komist upp um hann“, að fólk sé búið að fá nóg af honum. Hann á þannig alltaf von á að vera sagt upp, bæði í vinnunni, af vinunum og af kærustunni. En þessi fókus hans á sjálfan sig og eigin stöðu leiðir svo aftur til þess að hann sér ekki alltaf annað fólk og aðstæður í réttu ljósi, hann er blindaður af eigin ofsóknaræði.

Höfundur dregur upp nokkrar sannfærandi og skemmtilegar persónur, svo sem hinn bugaða föður Arnar, sem var fjarlægur jafnvel fyrir fangelsisvistina en er bleiki fíllinn í stofunni eftir hana. Bæld angist Arnar vegna fangelsisvistar föðurins kristallast fullkomlega í því hversu mikið hann finnur til með pabba sínum í margvíslegum aðstæðum. Þessi samúð finnur sér þó engan farveg og eins og flestar tilfinningar Arnar drukkna þær í sjálfhverfum kvíða. Móðir hans er afskaplega kómísk í sínum harmi, gjörsamlega heilluð af óförum annarra og hringir sífellt í son sinn til að segja honum frá skelfilegum banaslysum, ólæknandi veikindum og hvers kyns þjáningum og óláni.

Aðrar persónur eru óræðari; Hrafnhildur, kærasta Arnar, er ægifögur og dularfull og framan af erfitt að segja hvort hún er undirskrifuð persóna eða hvort við sjáum hana bara með takmörkuðum augum Arnar sem, þrátt fyrir að vaka yfir hverri hreyfingu hennar, er ófær um að skilja hana nema að mjög takmörkuðu leyti. Tyrone birtist að sumu leyti sem rasísk steríótýpa, svartur, úr gettóinu, óendanlega svalur og með risastórt typpi – holdgervingur minnimáttarkenndar og óöryggis Arnar – hugmynd sem gengur fullkomlega upp í exótískri stórborginni en virkar ekki sem skyldi í íslenskum hvunndegi.

Þótt Örn sé að mörgu leyti viðkunnanlegur og ljúfmenni rennur fljótlega upp fyrir lesandanum að hann er ekki alltaf áreiðanlegur sögumaður og ályktanir hans þar af leiðandi ekki endilega réttar. Það er þó skemmtilega óljóst framan af hvenær lesandann ætti að setja spurningamerki við niðurstöður hans og í framhaldi af því, athafnir hans. Hér má til dæmis nefna samskipti Arnar við Andreu, æskuvinkonu sína sem er með downs- heilkenni – hann leitar mikið til hennar þegar vinnan og einkalífið er sem erfiðast og foreldrar hennar og starfsfólk á sambýlinu gera athugasemdir við samband þeirra. Þau hafa áhyggjur af því að hann eyðileggi samband hennar við aðra vistmenn og halda jafnvel á tímabili að hann hafi misnotað hana kynferðislega. Ekkert er fjær Erni, en eftir stendur spurningin – er hægt að líta á samband þeirra sem einhvers konar misnotkun að því leyti að hann hengir sig á hana þegar vinnan og einkalífið er að buga hann? Eða er þetta einmitt einkenni heilbrigðs vinskapar – að þegar annar aðilinn á um sárt að binda leiti hann meira til hins? En er hægt að tala um slíkt jafningjasamband í þessu tilviki – eða verður Andrea bara sár ef Örn fækkar heimsóknunum þegar betur árar í lífi hans? Við þessum spurningum fást auðvitað engin svör en vert að velta þeim fyrir sér og skoða um leið afstöðu samfélagsins til fatlaðs fólks og hvenær sé verið að vernda manneskjur og hvenær ræna þær þátttöku í lífinu með öllu sem því fylgir.

Höfundur tæpir á ansi mörgum málum og vart steinn í mannlegu landslagi sem ekki er snúið við; kynferðisofbeldi, geðræn vandamál, fordómar samfélagsins, samkynhneigð, fangelsisvist, einelti, undirliggjandi kynþáttafordómar, undirheimar Reykjavíkur, neysluhyggja, afstaða til fatlaðs fólks og svona mætti lengi telja. Þessi ofgnótt málefna gerir frásögnina vissulega líflega og heldur lesandanum við efnið en verður um leið þess valdandi að sagan skautar dálítið yfir sumt og fer sjaldan á djúpið. Það sem fær meira rými, eins og til að mynda upplifun Arnar af fangelsisvist föðurins og samband hans við Andreu, verður þeim mun áhugaverðara.

Það sem Dóri gerir þó best er að ná utan um ákveðinn íslenskan veruleika, stemningu og andrúmsloft á myljandi fyndinn en um leið ansi naskan máta: „Það er fátt jafn dapurlegt og auglýsingastofa á vetrarmorgni í upphafi viku. Það er eins og á munaðarleysingjahæli í framtíðinni. Litlu hipsterarnir; grafísku hönnuðirnir í stuttu buxunum sínum, gráir eftir vöku og fyllerí helgarinnar mynda sorglegan hala við kaffivélina og rétta fram málin sín eins og Ólíver Tvist að biðja um ábót á súpuna.“

Vangaveltur um karlmennskuna og á köflum góð persónusköpun í bland við setningar sem ætti helst að ramma inn og hengja upp á vegg fleyta bókinni yfir stórsjó og sker síðari hlutans þar sem frásögnin missir dálítið fótana þegar hinir ótalmörgu þræðir reyna að koma saman.  Sagan heldur þó til enda skemmtilegum höfundartóni Dóra þar sem hin hressa og grófa en þó varnarlausa sögurödd sem oft hefur ómað í ljóðum hans og uppistandi fylgir honum yfir í skáldsöguna og finnur sig þar ljómandi vel.

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Spenntur á taugum með skýra stefnu

Bókmenntir

„Bókin er fyrst og fremst um karlmennskuna“

Bókmenntir

Lífið finnur leið til að láta okkur líða illa

Menningarefni

Dóri DNA reynir fyrir sér í LARP-i