Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Múslimar koma sér fyrir hjá Fríkirkjunni

10.06.2016 - 11:57
Mynd: RÚV / RÚV
Trúarsöfnuður Menningarseturs múslima hefur fengið aðsetur í safnaðarheimili Fríkirkjunnar í Reykjavík á meðan föstumánuðurinn ramadan stendur yfir. Séra Hjörtur Magni Jóhannsson segir í samtali við fréttastofu að eitt helsta markmiðið með þessu sé að auka samstarf og samkennd á milli trúarhópa.

Menningarsetur múslima þurfti að rýma Ýmishúsið í upphafi mánaðar samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Stofnun múslima, sem á húsið, fór fram á að húsið yrði rýmt.

Ramadan hófst í upphafi viku og hefur söfnuður Menningarsetursins verið á nokkru flakki við trúarathafnir sínar vegna föstumánaðarins. Á meðan ramadan stendur yfir mega múslímar ekki borða, drekka, reykja eða stunda kynlíf frá sólarupprás til sólarlags. Eðli máls samkvæmt er mikilvægasti tími hvers dags í kringum sólarupprás og eftir sólarlag. Á Íslandi er það um hánótt, frá eitt til þrjú að nóttu.

Fyrst um sinn hélt söfnuðurinn athafnir sínar fyrir utan Ýmishúsið í óleyfi Stofnunar múslima. Líkt og sjá má á myndbandi hér fyrir neðan þurfti lögregla að hafa afskipti af söfnuðinum í vikunni. 

Deilur Menningarsetursins og Stofnunar múslíma hafa verið nokkuð harðar. Karlmaður, sem mótmælti útburði Menningarseturs múslima úr Ýmishúsinu, var handtekinn eftir að hann réðst á Karim Askari, framkvæmdastjóra Stofnunar múslíma, með steypustyrktarjárni. Sú árás var kærð.

Karim sagði í samtali við fréttastofu um helgina að karlmaður úr röðum Menningarseturs múslima hefði veist að honum við heimili hans í Breiðholti. Að hans sögn kom maðurinn síðla kvölds í vikunni og lét öllum illum látum fyrir utan heimili hans.

„Ég lít á það sem kristilegan náungakærleika í anda Jesú frá Nasaret að bjóða þeim aðstöðu fyrir sínar trúariðkanir þó að þetta séu trúfélög sem eru kannski allt að því á sitt hvorum pólnum,“ segir Hjörtur Magni Jóhannsson Fríkirkjuprestur. „Við leggjum mikla áherslu á víðsýni, umburðarlyndi, frjálslyndi og mannréttindi í okkar boðskap og það á við alla menn, líka þá sem hafa aðra sýn og aðrar skoðanir. Við tökum ekki undir þær en við komum til hjálpar. Við viljum leitast við að gera það þegar fólk er í neyð. Þetta eru nú systur trúarhefðir kristni, islam og gyðingdómur.“  

Hjörtur segist hafa unnið með búddistum, hindúum, gyðingum en ekki fyrr múslimum. „Við veitum þeim húsaskjól og það þykir mér vænt um að gera.“