Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Mun meira en almenningur getur vænst“

28.06.2017 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands gagnrýnir afturvirkar launahækkanir til embættismanna hjá ríkinu harðlega. Hann segir að félagsmenn hans séu mjög ósáttir við þá misskiptingu sem er að verða á milli starfsmanna ríkisins.

„Við hjá Rafiðnaðarsambandinu erum með fasta samninga en höfum uppsagnarákvæði á næsta ári. Það er mikill þrýstingur á okkur að segja samningum lausum. Nýjustu hækkanir embættismanna hjálpa okkur ekki við að halda samningum. Félagsmenn eru mjög ósáttir með þá misskiptingu sem er að verða á milli elítunnar hjá ríkinu og almennra starfsmanna. Þessi hækkun er mun meiri en almenningur getur vænst,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins. Hann segir að stjórnendur njóti mikils launaskriðs á meðan félagar í sambandinu sitji eftir.

Kjararáð hækkaði heildarmánaðarlaun ríkisendurskoðanda um hátt í 300.000 krónur í síðustu viku og laun ferðamálastjóra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins um hátt í 200.000 krónur. Hækkanirnar eru afturvirkar, lengst aftur til 1. janúar í fyrra hjá forstjóra Fjármálaeftirlitsins, framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar og varaforseta Hæstaréttar. Sumir embættismannanna eiga því von á milljónum króna í leiðréttingu.

Fengu 14.600 króna eingreiðslu

Í pistli á vef Rafiðnaðarsambandsins segir formaðurinn að opinberir starfsmenn sæki eðlilega skýr viðmið í þessar launahækkanir og eingreiðslur. 

Kristján segir mikinn mun á þessum afturvirku launahækkunum og þeim sem almennir launþegar fá. Hann bendir á að í almennum kjarasamningum árið 2014 hafi verið ákvæði um 14.600 króna eingreiðslu vegna janúarmánaðar það árið. „Við gerð kjarasamninga er alltaf hamrað á því að ekki sé hægt að hækka laun of mikið því að það valdi launaskriði og verðbólgu.“

Vill að stjórnendur fái svipaðar hækkanir og almenningur

Kristján segir eðlilegt að stjórnendur ríkisstofnana fái laun í samræmi við þau störf sem þeir sinna en að nýlegar hækkanir séu úr takti við allt sem er verið að gera í samfélaginu. „Á þeim forsendum er ég ekki sáttur við að opinberir stjórnendur séu leiðandi í launum. Það er mjög óeðlilegt.“ Hann segir æskilegt að stjórnendur fái svipaðar hækkanir og almenningur á vinnumarkaði en ekki svo miklar hækkanir í einu með afturvirkni marga mánuði og jafnvel meira en ár aftur í tímann.