Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mun halda í sér fyrir auka mánuð í fæðingarorlorlofi

17.12.2019 - 23:19
Mynd: RÚV / RÚV
Alþingi samþykkti í dag lög um að lengja fæðingarorlof um þrjá mánuði. Orlofið verður lengt í tveimur skrefum næstu tvö ár. Þeir sem eiga barn eftir áramót fá því einn auka mánuð í fæðingarorlof. Kona sem er sett á gamlársdag segist ætla að halda í sér.

Með lagabreytingunni lengist fæðingarorlofið í tveimur áföngum. Samanlagður réttur foreldra lengist úr níu mánuðum í tíu nú um áramótin. Hvort foreldri fær minnst fjóra mánuði en við það bætast tveir mánuðir í sameiginlegan rétt. 

„Það eru ýmsir sem eru alveg á mörkunum sem finnst þetta pínu óréttlátt að ná ekki þessari nýju breytingu. En mér finnst fólk skilja það að einhverntíman þurfi breytingarnar að taka gildi,“ segir Ragnheiður Bachman Gunnarsdóttir ljósmóðir. 

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík - RÚV

Sólveig Rós Másdóttir er sett á gamlársdag. Hún er sátt við lenginguna og vonar að hún nái henni. Hún ætlar að halda í sér ef hún þarf. „Ég ætla bara að reyna að vera slök. Að sjálfsögðu vil ég ganga núna fram yfir minn setta dag til að fá þennan auka mánuð af fæðingarorlofi. Ég get alveg ímyndað mér að það væri mjög óþægilegt að vera komin með einhver heilsufarsvandamál og hika við það og missa þá af þessum mánuði, það er bara staða sem ég óska engum að vera í,“ segir Sólveig. 

Árið 2021 lengist orlofið um tvo mánuði til viðbótar, úr tíu í tólf. Enn á eftir að ákveða hvernig þeir tveir mánuðir skiptast á milli foreldra.

Skiptar skoðanir birtast í umsögnum um frumvarpið á því að réttur hvors foreldris til fæðingarorlofs sé óframseljanlegur. Ljósmæðrafélag Ísland telur það jákvætt og að það stuðli að því að fleiri feður taki lengra fæðingarorlof. Barnaheill og Geðverndarfélag Ísland telja það hins vegar neikvætt og að rýmka ætti rétt til að skipta fæðingarorlofi öðruvísi milli foreldra í undantekningatilvikum ef annað foreldri getur ekki nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs.