Í ár lenda 33 flugvélar á Keflavíkurflugvelli á aðfangadag samaborið við um fimmtíu í fyrra. Þá lenda 46 vélar hér á gamlársdag en þær voru 56 á síðasta ári. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir þetta haldast í hendur við almenna fækkun ferðamanna.
„Í fyrra komu hingað um 35 þúsund manns yfir jólin og um 135 þúsund ferðamenn í desember öllum þannig að það má gera ráð fyrir að þessar tölur verði í kringum 125 þúsund fyrir desember, 25 til 30 þúsund yfir jól og áramót. Þannig að það er kannski breyting núna frá því sem verið hefur í fyrra og hitt í fyrra að það er ennþá rými á hótelum í höfuðborginni og sérstaklega á landsbyggðinni,“ segir Jóhannes.
Hann segir að þetta megi skýra með aukinni samkeppni á ferðaþjónustumarkaði og minna flugframboði.
„Með öllum fyrirvörum þá mátum við að þetta hefði verið um 30 milljarðar sem ferðamenn skiluðu í desember til þjóðarbúsins í desember í gjaldeyristekjum í fyrra. Það má búast við því að það verði heldur minna núna. Kannski í kringum 25 milljarðar eða svo,“ segir Jóhannes.
Óhætt er að segja að ferðamenn séu áberandi í miðborg Reykjavíkur í aðdraganda jólanna. Ástæður þeirra fyrir því að vera á Íslandi yfir hátíðirnar eru margar og mismunandi, eins og sjá má í spilaranum hér að ofan.