Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mun berjast þar til systir hennar verður látin laus

10.12.2019 - 20:11
Mynd: Rúv / Kastljós
Lina al-Hathloul, baráttukona fyrir mannréttindum kvenna í Sádi-Arabíu, er viðmælandi Kastljóss í dag í tilefni af alþjóðlegum degi mannréttinda. Hún ferðast um heiminn og berst fyrir því að systir hennar, Loujain al-Hathloul, sem er í fangelsi fyrir að keyra bíl í Sádi-Arabíu, verði látin laus. Systir hennar hefur þar sætt grimmilegum pyntingum af hálfu stjórnvalda.

Rænt, pyntuð og sett í einangrun án réttarhalda

Loujain al-Hathloul, systir Linu al-Hathloul, var handtekin 2014 fyrir að aka bíl í Sádi-Arabíu, henni var sleppt. Í maí 2018 var henni rænt úti á götu í Dubai og hún sett í fangelsi í Sádi-Arabíu þar sem hún hefur verið pyntuð á grimmilegan hátt að skipan stjórnvalda.

Lina al-Hathloul segir að systir hennar hafi verið þvinguð til að borða, svipt svefni, látin sæta vatnspyntingum, kynferðislegri áreitni og hótunum. Hún sé nú höfð í einangrun og hafi verið síðan í apríl. 

Lina al-Hathloul segir að systir hennar sé ákærð fyrir aktivisma. Réttarhöldum yfir henni sem vera áttu í apríl var frestað daginn sem þau áttu að hefjast. Síðan þá hafa engar fregnir borist af því hvenær þau verða. 

Ötul baráttukona fyrir jafnrétti

Loujain al-Hathloul hefur barist fyrir jafnrétti kynjanna og meðal annars unnið að því að opna skýli fyrir konur sem verða fyrir heimilisofbeldi. Árið 2015 var hún talin þriðja valdamesta arabíska kona í heimi. 

Lina al-Hathloul segir að systir hennar hafi áttað sig á því að breytinga væri þörf í heimalandi þeirra eftir að hún flutti til útlanda. Hún hafi viljað berjast fyrir jafnrétti, sem er grundvallarmannréttindi. Lina al-Hathloul segir hana berjast því hún elski land sitt, baráttuandinn spretti ekki af hatri. 

Sádi-Arabía sé að verða lögregluríki. Allir sem tjái skoðun sína, tali eða jafnvel hugsi, séu settir í fangelsi. Loujain al-Hathloul sé aðeins ein af þúsund pólitískum föngum í ríkinu. 

Getur ekki þagað eða setið aðgerðarlaus

Lina al-Hathloul, sem er nú búsett í Brussel í Belgíu, ferðast um heiminn og talar máli systur sinnar og annarra baráttukvenna í Sádi-Arabíu. Hún varpar ljósi á illa meðferð og pyntingar á föngum í landinu og krefst þess að systir hennar verði látin laus. 

Hún segir að yfirvöld hafi reynt að þagga niður í henni og fjölskyldu hennar. Þá séu þau öll í ferðabanni. Hins vegar geti hún ekki þagað lengur eða setið aðgerðarlaus. Hún muni berjast þar til systir hennar verður látin laus. 

Lina al-Hathloul segist telja að Sádi-Arabía muni breytast til hins betra. Fleiri og fleiri gangi í raðir aktívista, krefjist breytinga og hætti lífi sínu í því skyni. Hlutir breytist og séu að breytast, því fólk hafi krafist breytinga. Til dæmis megi konur nú keyra í Sádi-Arabíu. Stjórnvöld þurfi þó að sleppa þeim konum og körlum sem barist hafa fyrir breytingum úr haldi og sýna með því að þeim sé alvara um endurbætur.