Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Muhammed litli fær að vera áfram á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að vísa ekki pakistanska drengnum Muhammed og fjölskyldu hans af landi brott á morgun. Brottvísun þeirra og annarra barnafjölskyldna sem hafa verið hér lengur en en í sextán mánuði hefur verið frestað. Í samtali fréttastofu RÚV við fjölskylduna í gær kom fram að 26 mánuðir eru síðan hún kom til landsins. Þau sóttu um hæli hér í lok árs 2017.

Í yfirlýsingu á vef dómsmálaráðuneytisins sem birtist í dag kemur fram að samkvæmt lögum um útlendinga sé heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að tilteknum skilyrðum uppfylltum, hafi hann sótt um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða. Athygli dómsmálaráðherra hafi nýlega verið vakin á því að í einstökum málum geti tíminn orðið  óhæfilega langur.

Ráðherra segist ætla að kynna í ríkisstjórn áform um að stytta hámarkstíma málsmeðferðar úr átján mánuðum í sextán í hælismálum þar sem börn eiga í hlut. Standa vonir til þess að þetta verði aðeins fyrsta skrefið í að stytta meðferð slíkra mála. Ráðherra leggur áherslu á að þetta sé hámarkstími og málsmeðferð eigi alla jafna að taka skemmri tíma. Vilji löggjafans og stjórnvalda sé skýr. Taka beri sérstakt tillit til hagsmuna barna við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd.

Þingmannanefnd um málefni útlendinga fundaði fyrir helgi um stöðu barna og fólks í viðkvæmri stöðu. Dómsmálaráðherra hefur falið nefndinni að fylgja þeirri vinnu áfram eftir. 

Í dag var haldinn fjölmennur samstöðufundur í Vesturbæjarskóla fyrir Muhammed og fjölskyldu hans, en Muhammed er nemandi við skólann. Fullt var út úr dyrum. Eftir það var gengið í dómsmálaráðuneytið þar sem sautján þúsund undirskriftir voru afhentar með áskorun um að fjölskyldan fengi að vera á landinu.