
Mueller mælir gegn fangavist Flynns
Flynn hefur 19 sinnum mætt í yfirheyrslu til Muellers og starfsmanna hans síðan Trump var kjörinn í nóvember 2016. Vitnisburður hans hefur verið einkar hjálplegur, bæði í máli gegn honum og öðrum sem rannsóknin beinist að, segir í minnisblaði sem Mueller færði dómara í gær. Þar segir Mueller að þrátt fyrir alvarlega glæpi verði að líta til öflugrar ferilskrár hans við her- og almannaþjónustu. Flynn er fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustumála varnarmálaráðuneytisins og þriggja stjörnu herforingi.
Flynn var sá fyrsti sem lýsti sig sekan í rannsókn Muellers á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016. Flynn laug í yfirheyrslum fjórum dögum eftir embættistöku Trumps í janúar í fyrra. Þar sagði hann ósatt frá samtali sem hann átti við Sergei Kislyak, þáverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum. Flynn gegndi embætti þjóðaröryggisráðgjafa í Hvíta húsinu til skamms tíma. Þar var einnig gert að því skóna að hann hafi logið að embættismönnum Hvíta hússins um samtal hans við Kislyak. Hann laug svo aftur að rannsakendum í mars á þessu ári, þá um upphæð sem hann hlaut fyrir störf sín fyrir tyrknesk stjórnvöld.
Engar vísbendingar eru á minnisblaðinu um hvað það var í vitnisburði Flynns sem reyndist rannsakendum svo mikilvægt. AFP fréttastofan greinir frá því að það gætu þó reynst dýrmætar upplýsingar í Rússlandsrannsókninni, þar sem Flynn var helsti tengiliður framboðs Trumps við rússneska embættismenn. Í viðauka við minnisblaðið var búið að afmá stærstan hluta textans. Þar virtist þó líta út fyrir að Flynn hafi einnig reynst mikilvægt vitni í fleiri alríkisrannsóknum sem ekki hefur verið greint frá opinberlega. Þær gætu varðað fjárhagsleg tengsl Trumps við Rússland vegna fasteignaviðskipta.