Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mountaineers: „Við gerðum klárlega mistök“

08.01.2020 - 16:51
Innlent · - · Landsbjörg · Veður
Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun
Rekstrarstjóri Mountaineers of Iceland segir að allir hjá fyrirtækinu séu miður sín eftir að bjarga þurfti 49 manns af Langjökli í nótt. Um var að ræða vélsleðahóp sem var í ferð á vegum fyrirtækisins, en búið var að vara við mjög vondu veðri á svæðinu.

„Við vorum meðvitaðir um það og okkar áætlanir voru að vera farnir af svæðinu áður en þetta veður kæmi,“ segir Haukur Herbertsson, rekstrarstjóri fyrirtækisins.

Snýst þetta um að þið viljið ekki aflýsa því það kostar fyrirtækið mikið?

„Nei, alls ekki. Þarna vorum við bara með lítið brot af því sem við erum með daglega. Þetta snerist ekki um peninga, þetta snerist meira um að klára þessa ferð fyrir þetta fólk sem við töldum að væri vel mögulegt.“

Haukur segir að ferðin hafi tafist vegna þess að ákveðið var að heimsækja íshelli í Langjökli. Það gerði það að verkum að hópurinn lenti í vonda veðrinu sem búið var að spá.

Vildu ekki kalla á björgunarsveitir

„Við gerðum klárlega mistök með því að fara inn í íshellinn. Við gerðum hugsanlega fleiri mistök. Á þessum tímapunkti veit ég ekki hver þau öll eru,“ segir Haukur. 

Fyrirtækið ætlaði upphaflega sjálft að koma fólkinu til bjargar og kallaði ekki strax á utanaðkomandi hjálp.

„Þegar við óskum eftir hjálp frá okkar eigin fólki, þá er fremsti leiðsögumaður hópsins farinn af stað að sækja snjótroðara sem var þarna á svæðinu. Við gerðum ráð fyrir því að hann myndi ná að fólkinu og koma því í skjól. Svo bilar troðarinn og þegar við sjáum að bíll bilar í flotanum sem er einnig að koma að fólkinu, þá þurftum við að kalla til viðbragðsaðila,“ segir Haukur.

Ætluðuð þið að komast hjá því að kalla á björgunarsveitir?

„Já, raunverulega ætluðum við ekki að kalla til björgunarsveitir nema þess þyrfti.“

Hefðuð þið þurft að gera það fyrr?

„Já, eftir á að hyggja. Um leið og okkur var ljóst að snjótroðarinn væri með gangtruflanir þá hefðum við átt að kalla til björgunarsveitir.“

Telur fyrirtækið ekki hafa stefnt lífi fólksins í hættu

Voruð þið ekki að stefna þessu fólki í hættu?

„Það er erfitt að segja um það. En ég tel ekki vera að við höfum stefnt þessu fólki í hættu. Við gerðum allt sem við gátum til að tryggja öryggi þeirra.“

Fyrirtækið lenti í sambærilegu atviki fyrir þremur árum. Áströlsk hjón sem voru í þeirri ferð urðu viðskila við hópinn og óttuðust að verða úti, þar til þeim var komið til bjargar um sjö klukkustundum síðar. Um 180 manns tóku þátt í leitinni að þeim. Um 200 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni nú.

Haukur segir að verkferlum hafi verið breytt frá því sem var fyrir þremur árum. 

Er ekki ámælisvert að lenda í svona uppákomum í tvígang á þremur árum?

„Jú, það er ámælisvert og við erum öll gjörsamlega miður okkar yfir þessu,“ segir Haukur Herbertsson, rekstrarstjóri Mountaineers of Iceland.