Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mountaineers: „Get ekki fundið nein mistök“

07.01.2017 - 16:51
Mynd: RÚV / RÚV
Herbert Hauksson, einn eigenda fyrirtækisins Mountaineers of Iceland, segir að ætlunin sé að hitta áströlsku hjónin sem týndust við Langjökul, í ferð á vegum fyrirtækisins, á mánudag. Hjónin gagnrýndu fyrirtækið harðlega í fréttum sjónvarps í gær og segja að loka eigi fyrirtækinu. Herbert segist skilja viðbrögð hjónanna vel og harmar það að atvikið hafi átt sér stað. Hann telur fyrirtækið ekki hafa gert mistök.

Herbert segir að veður hafi breyst skjótt eftir að lagt var af stað. Veðrið hafi skollið á um miðjan dag og helmingi hópsins snúið við strax til búðanna. „Fremri leiðsögumaðurinn sem var með fremri hópinn hann stoppar ferðina af og óskar eftir aðstoð sem honum var veitt.“ Áströlsku hjónin voru í þeim hópi. Herbert segir að Veðurstofan hafi ekki verið búin að spá stormi á þessum stað um það leyti sem haldið var af stað.  

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hafði stormi, 20-25 metrum á sekúndu, hins vegar verið spáð á miðhálendinu á fimmtudaginn. Að morgni fimmtudagsins var spáin svohljóðandi: Sunnan 18-25 m/s og talsverð slydda eða rigning, en úrkomuminna norðan jökla. Hiti 0 til 5 stig. Snýst í suðvestan 18-25 með éljagangi eftir hádegi og frystir aftur, fyrst vestantil. 
 

Horfa má viðtal sem Jóhann Bjarni Kolbeinsson fréttamaður tók við Herbert Hauksson í spilaranum hér fyrir ofan. 

Hjónin voru á aftasta sleða í ellefu sleða hópi. Leiðsögumaður var fremst í hópnum. Af hverju var enginn leiðsögumaður aftast í hópnum? „Það er vegna þess að ferðin slitnaði í sundur það hafa verið einhverjir sem ekki treystu sér að aka á þeim hraða. Hann hefur misst sjónar á sleðanum fyrir framan sig. Það eru reglurnar sem eru lagðar fyrri fólkið að stöðva ef þeir sjá ekki sleðann fyrir framan sig og veit ekki hvert á að fara.“

Mynd: RÚV / RÚV
Rætt var við Wilson hjónin í fréttum Sjónvarps í gærkvöld.

Ferðin hafi verið ágætlega mönnuð. Sleðarnir hafi verið sautján og sleðaleiðsögumenn fjórir. Enginn hefði átt að þurfa að týnast. Herbert segir að uppstillingin hafi verið þannig að tveir voru með öðrum hópnum og tveir með hinum. „Einhvers staðar á leiðinni slitnar í sundur sem ég kann ekki skýringar á. Þegar slitnar í sundar gerir fremsti sleðaleiðsögumaður sér ekki grein fyrir því hvar röðin slitnar í sundur. Eftir sem áður, um leið og hann gerir sér grein fyrir því að aðrir leiðsögumenn eru ekki með, þá stöðvar hann og óskar eftir hjálp og honum var send hjálp frá Geldingarfelli.“ Leit hafi þá verið send af stað um leið og ljóst var að einn sleða vantaði og haft samband við Neyðarlínuna og björgunarsveitir. 

Koma hafi þurft hinum ferðalöngunum í hús og í framhaldinu haldið af stað í leit að fólkinu sem var saknað. Hann telur ósennilegt að hjónin hafi verið í tvo klukkutíma á staðnum þar sem drapst á sleðanum, eins og hjónin halda fram, vegna þess að þá hefðu leiðsögumenn fyrirtækisins fundið þau. „Það sem gerir erfitt fyrir er að ef fólk bíður ekki á þeim stað, þar sem það verður viðskila, er eiginlega ómögulegt að hafa uppi á því.“ 

Daginn eftir hafi verið heiðskírt á Skálpanesi og öll förin sést í snjónum. „Þá áttuðum við okkur á því að þau höfðu keyrt kílómetra burtu frá slóðinni sem þau áttu að vera á.“

Á heildina litið, líturðu svo á að þitt fyrirtæki hafi gert einhver mistök? „Í sjálfu sér get ég ekki fundið nein mistök en þetta er náttúrlega röð óheppilegra tilfella sem valda þessu. Okkur þykir þetta afar leitt að þetta skyldi þurfa að komið upp á og munum skoða alla verkferla hjá okkur í framtíðinni.“