Móttaka stærri skipa möguleg með hafnarstækkun

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Unnið er að stækkun norðurgarðs í Grundarfjarðarhöfn. Hafnargarðurinn lengist um 130 metra og þar verður um tíu metra dýpi við kant. Nú er verið að skipa upp um 650 tonnum af stáli sem er framleitt í Hollandi og var flutt þaðan til Íslands til hafnargerðarinnar.

Með stækkuninni bætist 4.800 fermetra vinnusvæði við þá 6.000 fermetra sem þegar eru. Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri Grundarfjarðarhafnar segir það gera unnt að fullnægja þörfum allra útgerða sem nota höfnina og gerir stærri skemmtiferðaskipum kleift að leggjast að bryggju.

„Við höfum verið með skemmtiferðaskip upp að sem er bara í minni kantinum og hin hafa þurft að liggja út á. En nú sjáum við fram á að með þessari breytingu og stækkun að við getum tekið obbann af þeim skipum sem hafa þurft að vera á akkeri,“ segir hann.

Námuvinnsla fyrir uppfyllingu er þegar hafin og Hafsteinn vonast til að geta byrjað að reka stálið niður í desember. Bókun skipa við höfnina er þá þegar hafin.

„Allavega erum við búnir að bóka skemmtiferðaskip 2021 við þessa nýju viðlegu. Já, ég held að með stækkun á íslenska fiskiskipaflotanum og með djúpristun verður þetta auðveldara fyrir útgerðir að velja góðar hafnir til að koma á þar sem þjónustan er góð,“ segir Hafsteinn.

560 tonn af stáli komu frá Hollandi til hafnargerðarinnar
elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi