Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Móttaka flóttafólks mun ódýrari en ráðgert var

25.06.2019 - 20:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Mikil ánægja er í bæjarráði Mosfellsbæjar með góðan árangur af móttöku flóttafólks frá Úganda til sveitarfélagsins. Það er mat þeirra sem að verkefninu komu að vel hafi tekist til, ef frá eru talin vandræði við að útvega fólkinu húsnæði. Áætluð útgjöld við móttöku flóttafólksins voru rúmar 44 milljónir en raunútgjöld verkefnisins reyndust einungis rúmar 35 milljónir. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu um Mosfellsbæ sem móttökusveitarfélag flóttafólks frá Úganda.

Boðið að taka á móti 10 hinsegin flóttafólki

Samkynhneigð hefur verið bönnuð með lögum í Úganda frá nýlendutímanum, en úgandskt hinsegin fólk hefur engu að síður haldið lágstemmdar gleðigöngur undanfarin fimm ár. Fyrir fjórum árum hertu stjórnvöld löggjöf gegn samkynhneigð þrátt fyrir hávær mótmæli alþjóðasamfélagsins. Þrátt fyrir að stjórnlagadómstóll hafi síðar fellt lögin úr gildi hefur hinsegin fólk þurft að þola miklar ofsóknir.

Mosfellsbær sendi velferðarráðuneytinu yfirlýsingu í september 2015, þess efnis að sveitarfélagið hefði áhuga á að taka á móti flóttafólki. Mosfellsbær fékk síðar beiðni frá velferðarráðuneytingu í október 2017 þar sem sveitarfélaginu var boðið að taka á móti tíu hinsegin flóttafólki frá Úganda sem hafðist við í flóttamannabúðum í Kenía. Það var síðan samþykkt á fundi bæjarstjórnar Mosfellbæjar í janúar 2018. Hópurinn, sem samanstóð af tíu fullorðnum einstaklingur og fjórum börnum, kom til Íslands 19. mars 2018. 

Illa gekk að ganga frá húsnæðismálum

Upphæð fjárhagsaðstoðar sem fólkið fékk var mishá. Hún réðst af tegund búsetu og fjölskyldustærð í samræmi við reglur Mosfellsbæjar. Fjárhagsaðstoð var í byrjun greidd út með rafrænu bankakorti en síðar með peningum, þar sem fólkið bjó ekki yfir þekkingu til að  nýta sér rafræn bankaviðskipti. Þetta breyttist fljótlega og fólkið tileinkaði sér fljótt tæknina, fékk eigin bankareikninga og gat nýtt sér forrit í símum til að fylgjast með ráðstöfun fjármuna. 

Við komu fólksins til landsins hafði þremur af átta einstaklingum verið útvegað íbúðir. Tvær voru tilbúnar þegar fólkið kom en sú þriðja var laus viku eftir komu þess til landsins. Þeir sem ekki fengu húsnæði við komuna til landsins dvöldu til að byrja með á hóteli, gistiheimili eða í Airbnb-íbúðum. Aðeins var hægt að bóka gistingu í skamman tíma í einu og því þurftu þeir tveir sem ekki fengu strax húsnæði að fara á milli staða til að byrja með. Mikill aukakostnaður kom til vegna þessarar ráðstöfunar auk óþæginda fyrir einstaklingana. Fljótlega eftir komu fólksins til landsins slitnaði upp úr sambandi pars sem gerði það að verkum að útvega þurfti eina íbúð til viðbótar við það sem upphaflega var gert ráð fyrir. 

Í upphafi framfleytti fólkið sér með fjárhagsaðstoð frá  Mosfellsbæ. Sveitarfélagið greiddi auk þess fyrir kostnað vegna skólagöngu barnanna í upphafi og útvegaði fólkinu strætókort. Þegar fólkið hafði fengið kennitölur og gengið hafði verið frá húsaleigusamningum sóttu þau um húsnæðisbætur og sérstakan húsnæðisstuðning. 

Hópurinn sýndi fljótt mikinn áhuga á að fara út á vinnumarkaðinn. Þau fengu í upphafi aðstoð frá verkefnastjóra en síðar frá ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun við að útvega sér vinnu. Þrír aðilar voru til lengri tíma í fullri vinnu og þegar verkefninu lauk voru tveir af þeim með fastráðningu. Allir nema einn voru í vinnu á tímabilinu, sá sem ekki hafði verið í vinnu var í sjálfboðavinnu að jafnaði tvisvar í viku. 

Reyndist áskorun að fólkið vildi ekki halda hópinn

Áætluð útgjöld vegna móttöku flóttafólksins voru 44.351.215 krónur en raungútgjöld reyndust í lokin 35.414.206. Þar munaði mestu að ekki þurfti að kaupa túlkaþjónustu þar sem allt fólkið var enskumælandi og framfærsla var lægri en gert var ráð fyrir. Í skýrslunni kemur fram að helstu áskoranir verkefnisins hafi tengst útvegun íbúðarhúsnæðis fyrir fólkið.  Eins hafi óraunhæfar væntingar um að einstaklingarnir hefðu áhuga á að halda hópinn reynst áskorun. Þannig hafi fræðsla til hópsins að mestu farið fram á einstaklingsgrunni. Verkefnið þótti að öðru leyti ganga vel. Að því er fram kemur í skýrslunni var samfélagið í heild vinveitt fólkinu, sem studdi við aðlögun bæði fullorðinna og barna. Mosfellsbær þótti því vel til þess fallinn að taka á móti hópnum.

Félagsmálaráðuneytið hefur farið þess á leit við Mosfellsbæ að sveitarfélagið taki aftur á móti hinsegin flóttafólki sem er staðsett í Kenía, allt að tíu einstaklingum, á árinu 2019. Það er talinn mikill styrkur fyrir verkefnið að sveitarfélagið taki aftur á móti sambærilegum hópi og gæti í leiðinni veitt öðrum sveitarfélögum stuðning sem eru í fyrsta sinn að taka á móti flóttafólki frá Kenía. 

Á fundi ríkisstjórnar 12. október í fyrra var samþykkt að bjóða allt að 75 einstaklingum sem hafa stöðu flóttafólks til Íslands á árinu 2019. Annars vegar hinsegin flóttafólki sem staðsett er í Kenía og hins vegar sýrlensku fólki sem er í Líbanon.