Mótmæltu kongóskum stjórnvöldum í París

29.02.2020 - 03:19
Erlent · Afríka · Frakkland · Kongó · Evrópa
Mynd: AP / AP
Lestarstöðin Gare de Lyon í París var rýmd í dag eftir að mótmælendur kveiktu eld nærri henni. Fjöldi fólks kom saman fyrir utan tónleikahús þar sem tónlistarmaður frá Kongó var með tónleika. Fólkinu þykir tónlistarmaðurinn Fally Ipupa of náinn Felix Tshisekedi, forseta Kongó.

Lögreglan hafði bannað mótmæli við tónleikahúsið vegna pólitískrar spennu. Mótmælendur létu ekki segjast og kveiktu í ýmsu við lestarstöðina, til að mynda vespum og mótorhjólum sem lagt var fyrir utan hana. BBC hefur eftir lögreglu að mótmælendurnir hafi hindrað för slökkviliðsmanna að eldsvoðanum. Vitni segir mótmælendur hafa grýtt ýmsu lauslegu í átt að bæði lögreglu og slökkviliðsmönnum. 30 voru handteknir fyrir sinn hlut í mótmælunum og 54 voru sektaðir fyrir þátttöku sína í þeim.

Samkvæmt fjölmiðlum í Kongó mættu brottfluttir Kongómenn frá öðrum borgum í Evrópu, til að mynda Lundúnum, Brussel og Vínarborg, til þess að taka þátt í mótmælunum.

Fally Ipupa á nokkuð dyggan aðdáendahóp í Frakklandi. Hann hefur gert lög í samstarfi við nokkra franska rappara. Þetta var þó ekki í fyrsta sinn sem hann verður fyrir aðkasti í lanidnu, því hann varð að hætta við tónleika í Frakklandi árið 2011.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi