Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mótmæltu að mega ekki keppa við stráka

Mótmæltu að mega ekki keppa við stráka

14.10.2017 - 20:36
Tíu ára stelpur mega ekki keppa á móti keppa á móti tíu ára strákum á Íslandsmóti í körfubolta því Körfuknattleikssamband Íslands sagði nei. Þessu var mótmælt í dag. Það er verið að reisa glerveggi að óþörfu segir þjálfarinn. 

Stelpurnar í ÍR sigruðu á Íslandsmóti í tíu ára stelpna í Reykjanesbæ í morgun og mættu svo fyrir utan íþróttahúsið Ásgarð í Garðabæ þar sem strákarnir kepptu og foreldrarnir hjálpuðu við að safna fullt af undirskriftum þar sem aðskilnaði var mótmælt. 

„Við erum að berjast fyrir stelpum“, segir Kristjana Mist Logadóttir.  

„Og til að sýna að stelpur eru betri og jafngóðar. Og líka bara til að brjóta múrinn eða glervegginn“, segir Tanja Ósk Brynjarsdóttir

Nú vildi Körfuknattleiksamband Íslands ekki að þið kepptuð á þessu móti með strákunum, af hverju ekki?

„Út af því að við erum stelpur. Það voru engin rök,“ segir Kristjana.

„Þeir bara sögðu að þeir gætu það ekki en þeir geta breytt þessu án þess að þurfa að fara í Alþingi,“ segir Tanja. 

Brynjar Karl Sigurðsson, sem sjálfur spilaði í landsliðinu og æfði í Bandaríkjunum, hefur þjálfað þessar stelpur stíft í nokkur ár en dóttir hans er í liðinu. Hann segir að þær hafi ekki oft tapað fyrir strákaliðum.

„Ég er svona recovering karlremba sjálfur sem að datt aldrei í hug að stelpur gætu gert það sem þær eru að gera þannig að ég skulda alveg heilmikið. Svo eignaðist maður dóttur fyrir tíu árum síðan og maður fer að horfa á þetta með allt öðrum augum.“

Hann segir strákana líta á þessar stelpur sem jafningja. Höfnun Körfuknattleikssambandsins hafi verið vonbrigði: 

„Við erum að gefa fólki innblástur í hvernig er hægt að rífa upp kvennaíþróttir. Og við erum afgreidd í einhverju regluverki. Og ef þú pælir í þessu þá er alltaf verið að taka niður einhverja glerveggi og það er verið að taka þessi glerþök og allt þetta. Bíddu svo erum við hérna 2017 og það er verið að búa til glervegginn algerlega að óþörfu. Þetta meikar ekkert sens.“