Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Mótmælt á Austurvelli og átök í þingsal

24.02.2014 - 17:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríflega fimmtán þúsund manns hafa skráð sig á undirskriftasöfnun á Netinu þar sem skorað er á Alþingi og ríkisstjórn að draga ekki til baka með formlegum hætti ESB-aðildarumsókn Íslands nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

 Í annari sambærilegri söfnun, þjóð punktur is voru einnig komin ríflega fimmtán þúsund undirskriftir nú skömmu fyrir fréttir.  Á fjórða þúsund manns mótmæltu í dag á Austurvelli áformum stjórnvalda að slíta viðræðunum við ESB.
Á meðan mótmælt var á Austurvelli var þingmönnum stjórnarandstöðunnar heitt í hamsi í þingsalnum. Þingfundur hófst á því að ræða fundarstjórn forseta. Stjórnarandstaðan var andvíg því að forseti skyldi setja þingsályktunartillögu unranríkisráðherra um að slíta viðræðunum við ESB á dagskrá. Forseti varð við kröfu þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar um að taka tillöguna af dagskrá. Samt sem áður var hann gagnrýndir harkalega  af fjölmörgum þingmönnum fyrir að setja  málið á dagskrá en til stóð að ljúka umræðum um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðuna í viðræðunum við ESB og ræða svo tillögu utanríkisráðherra um að slíta viðræðunum. Margir og sumir oftar en einu sinni fór í ræðustól til að ræða fundarstjórn forseta en alls voru fluttar 40 ræður á rúmum klukkutíma. Umræðurnar snerustu málsmeðferð utanríkisráðherra, ríkisstjórnar og forseta Alþingis. Þingmenn voru ósáttir við að þingsályktunartillaga skyldi hafa verið lögð fram á föstudag og þingmönnum hefði verið tilkynnt um framlagninguna í sms skilaboðum. Þeir gagnrýndu að málið væri tekið á dagskrá áður en skýrsla Hagfræðistofnunnar væri að fullu rædd og sendi í nefnd. Einnig að ekkert samráð hefði verið haft við stjórnarandstöðuna. Forseti hefur fallist á að skýrslan verði send utanríkismálanefnd til umfjöllunar.