Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mótmæli, óeirðir, neyðarástand og útgöngubann

20.10.2019 - 00:44
epaselect epa07934900 Soldiers try to block the passage of a demonstrations against the increase of Metro fares take place, in Santiago, Chile, 19 October 2019. During this week, protests against the increase of Metro fares have turned into violent riots, as Government declared an emergency state, and soldiers were deployed in the streets.  EPA-EFE/ELVIS GONZALEZ
Hundruð hermanna standa nú vörð víðs vegar í Santiago de Chile. Er þetta í fyrsta skiptið síðan herforingjastjórn Pinochets var komið frá völdum og lýðræði komið á, að herinn er sendur gegn borgurum landsins.  Mynd: EPA-EFE - EFE
Tveggja sólarhinga löng, hörð og á köflum ofbeldisfull fjöldamótmæli í Santiago, höfuðborg Chile, urðu til þess að forseti landsins lýsti fyrst yfir neyðarástandi og lét svo undan meginkröfu mótmælenda og afturkallaði hækkun á fargjöldum í almenningssamgöngum í borginni. Neyðarástandi hefur þó enn ekki verið aflétt, hermenn standa enn vaktina víða um borg, gráir fyrir járnum, og í kvöld var tilkynnt um algjört útgöngubann í Santiago frá klukkan níu í gærkvöld, eða eitt í nótt að íslenskum tíma.

 

Hækkun fargjalda í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar, mikilvægustu samgönguæð almennings, tók gildi á föstudag. Mótmælin brutust út sama dag og þróuðust hratt út í óeirðir. Grímuklæddir hópar reistu götuvígi á mikilvægum umferðaræðum, kveiktu í strætisvögnum, eyðilögðu farmiðasjálfsala og unnu skemmdarverk á tugum neðanjarðarlestarstöðva og fleiri mannvirkjum. Neðanjarðarlestakerfið lamaðist og liggja allar ferðir niðri fram á mánudag hið minnsta.

Herinn gegn almenningi í fyrsta sinn frá falli herforingjastjórnarinnar

Stjórnvöld sendu hundruð hermanna á götur höfuðborgarinnar, í fyrsta skipti síðan landið losnaði undan herforingjastjórn Augustos Pinochet og lýðræði var komið á, árið 1990. Her og lögregla beittu táragasi, kylfum, háþrýstidælum og gúmmíkúlum í átökunum. Mótmæli og óeirðir héldu áfram í dag og enn kom til átaka milli mótmælenda og hers og lögreglu.  

Yfir 300 hafa verið handtekin og 156 lögreglumenn meiðst, samkvæmt upplýsingum lögregluyfirvalda. Sömu heimildir herma að einungis 11 mótmælendur hafi orðið fyrir meiðslum í látunum.

Fargjaldahækkun afturkölluð og útgöngubann sett á höfuðborgarbúa

Forseti landsins, Sebastián Piñera tilkynnti síðdegis að fargjaldahækkunin hefði verið afturkölluð. Hvort það nægir til að lægja öldurnar á eftir að sýna sig, því þótt sú hækkun hafi verið kveikjan að mótmælunum þróuðust þau fljótlega út í mótmæli gegn dýrtíð og háum framfærslukostnaði almennt. 

Hershöfðinginn Javier Iturriaga, sem falið var að stjórna aðgerðum hers og lögreglu í höfuðborginni, tilkynnti svo undir kvöld að útgöngubann tæki gildi í höfuðborginni klukkan 21 að staðartíma. „Eftir greiningu á ástandinu og þeim voðalegu atburðum sem hér urðu í dag, hef ég tekið þá ákvörðun að fella tímabundið niður ýmis réttindi og ferðafrelsi [borgaranna] með algjöru útgöngubanni,“ sagði hershöfðinginn. 

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV