Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mótmæli Hatara klippt út á DVD-útgáfunni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Mótmæli Hatara klippt út á DVD-útgáfunni

24.07.2019 - 16:02

Höfundar

Atriðið, þar sem íslenska hljómsveitin Hatari sést veifa palestínska fánanum þegar atkvæði þeirra úr símakosningu Eurovision-keppninnar fyrr í sumar voru lesin upp, hefur verið klippt út á DVD-útgáfunni af Eurovision-keppninni. Ekki liggur enn fyrir hvaða afleiðingar þessi mótmæli Hatara hafa á þátttöku Íslands í Eurovision á næsta ári en þá verður keppnin haldin í Hollandi.

Þetta staðfestir fjölmiðladeild Eurovision í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu um málið. Fréttastofa hefur óskað eftir upplýsingum af hverju þessi ákvörðun var tekin og hvort atriðið verði einnig klippt út þegar Eurovision-keppnin í Ísrael verður aðgengileg á hinu bandaríska Netflix en það það verður að teljast líklegt.

Hatari vakti mikla athygli fyrir framgöngu sína, bæði fyrir sjálfa Eurovision-keppnina og á meðan keppninni stóð.  Þrýstihópar hvöttu til þess að hljómsveitinni yrði bannað að koma til Ísraels vegna yfirlýsinga liðsmanna sveitarinnar um að þeir styddu sjálfstæðisbaráttu Palestínumanna og væru andsnúnir hernámi Ísraelsmanna. 

Sveitin tryggði sig áfram á úrslitakvöldið og þegar atkvæðin úr símakosningunni voru lesin upp beindist myndavélin að liðsmönnum hennar sem drógu þá upp palestínska fánann. Yfirlýsing sveitarinnar vakti hörð viðbrögð og var þess krafist að Íslandi yrði refsað þar sem fáninn hefði verið skýrt brot  á reglum keppninnar.  Öryggisverðir fjarlægðu fánana og jafnframt var fullyrt að starfsmenn flugfélags í Tel Aviv hefðu látið hljómsveitina hafa verstu sætin í flugvélinni sem flutti sveitina heim. 

Samkvæmt upplýsingum frá Eurovision hefur engin ákvörðun verið tekin refsingu Íslands en það verði tilkynnt um hana þegar og ef einhver slík ákvörðun verður tekin.